144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar.

262. mál
[16:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna þess að svar hæstv. ráðherra gerir ekkert til að skýra fyrir mér ítrekuð ummæli hans þess efnis að hafa þurfi hag heimila að leiðarljósi við afnám hafta. Það hlýtur að þurfa einhvers konar aðgerðaáætlun til þess að undanskilja heimilin neikvæðum áhrifum af haftaafléttingu.

Ég hef áhyggjur af því hvernig hæstv. ráðherra kemur fram í þessu máli. Við verðum aftur og aftur vitni að því að hann er að reyna að slá sig til riddara á flokkspólitískum vettvangi, nú síðast um þessa helgi, með loforðum um afnám hafta og að skammt sé að bíða stórra tíðinda.

Það er til staðar samráðsnefnd um afnám hafta og við höfum ekkert heyrt, ekki eitt orð, frá hæstv. ráðherra um hvað hann hyggist fyrir. Það er í hróplegu ósamræmi við það sem hann sagði sjálfur þegar hann var formaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili í stjórnarandstöðu og lagði áherslu á þverpólitískt samstarf um afnám hafta.

Ef hæstv. ráðherra ætlar að leika þennan leik, að vera stöðugt að reyna að kaupa sér vinsældir í sínum eigin flokksranni út á óljós fyrirheit um afnám hafta og ræða ekki við stjórnarandstöðu um þessi mál, þá er hann (Forseti hringir.) að leika sér að eldinum.