144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

skráning tjónabifreiða og eftirlit.

151. mál
[16:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Nokkuð er liðið frá því að fyrst var fjallað um sérstakar reglur um skráningu tjónabifreiða eða í kringum 1999. Farið var af stað með kerfi og fræðslu varðandi tjónabifreiðar, mat, endurskráningu og endurmat, en eðli málsins samkvæmt hefur margt breyst frá þeim tíma. Það er eðlilegt að huga að stöðunni í dag og hvort þörf sé á breytingum, hvort huga þurfi að mati, endurmati og skráningu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til bifreiða árið 2014.

Það er ljóst að efni í bílum sem og vinnuaðferðir hafa breyst. Ný efni eru í burðarvirki nýrra bíla sem ætti að kalla á aðrar og meiri kröfur nú en árið 1999 til þess búnaðar sem er á verkstæðum sem og þekkingar fagmanna.

Í dag berast tilkynningar um tjónabifreiðar frá lögreglu, tollstjóra og tryggingafélagi til Umferðarstofu, sem væntanlega heyrir undir Samgöngustofu í dag. Mig langar að varpa fram þeirri spurningu og velta því upp hvort ekki sé rétt að koma á faggiltri skoðunarstöð á ökutækjasviði sem falið væri að skoða tjónabifreiðar og gefa faglegt álit en væri kostað af þeim sem þjónustunnar nytu. Það gæti að mínu mati falið í sér hlutleysi og komið í veg fyrir hagsmunatengsl.

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort í dag séu skýrar reglur og eftirlit með skráningu tjónabifreiða á uppboðum. Eru bílar á lokuðum uppboðum tjónamerktir? Ég held að svarið við þessari spurningu sé nei. Ég held að eftirlit varðandi niðurrifslása og hvernig þeir eru notaðir í tengslum við uppboð sé ekki fyrir hendi. Það stendur skýrt og skorinort um niðurrifslása, í 12. lið um breytingalása í reglum um skráningu ökutækja, að tryggingafélög geti óskað eftir niðurrifslás á ökutæki sem seld hafi verið til niðurrifs. Það eru hins vegar brögð að því að slíkir bílar séu viðgerðir í skúrum vítt og breitt um landið og það tengist jafnframt svartri atvinnustarfsemi sem heldur er ekki af hinu góða og kemur við samfélagið á annan hátt.

Þess vegna legg ég fyrir hæstv. innanríkisráðherra þrjár spurningar. Fyrsta spurningin er:

1. Eru skýrar reglur og eftirlit með skráningu tjónabifreiða á opinberum uppboðum sem og lokuðum?

2. Hvaða menntunarkröfur eru gerðar til þeirra sem meta tjón bifreiða?

3. Eru settar fram og uppfærðar kröfur til verkstæða sem fengið hafa viðurkenningu til að vinna með tjónabifreiðar?