144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

skráning tjónabifreiða og eftirlit.

151. mál
[16:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og tek undir með hv. þingmanni að margt í þessu umhverfi má án efa bæta og hárrétt líka sem kom fram hjá hv. þingmanni að ýmislegt hefur breyst.

Ef ég vík að þeim spurningum sem bornar voru upp þá er því til að svara að hjá Samgöngustofu eru í gildi skráningarreglur ökutækja þar sem meðal annars er fjallað um skráningu tjónabifreiða. Þessar skráningarreglur eru byggðar á reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003. Þar kemur meðal annars fram að tilkynning um tjónabifreið, líkt og hv. þingmaður nefndi, skuli berast frá lögreglu, tollstjóra eða tryggingafélagi til Umferðarstofu, nú Samgöngustofu. Á grundvelli slíkrar tilkynningar skráir Samgöngustofa viðeigandi bifreið sem tjónabifreið í ökutækjaskrá og er eiganda bifreiðarinnar um leið send tilkynning um skráninguna.

Reglur um skráningu tjónabifreiða eru því almennt nokkuð skýrar. Ég ítreka að það er á ábyrgð lögreglu, tollstjóra og tryggingafélaga að bifreið sem tilkynnt er sem slík sé það í raun og veru. Samgöngustofa hefur hins vegar enga aðkomu að opnum eða lokuðum uppboðum slíkra ökutækja, líkt og nefnt var áðan, og það er nokkuð sem þarf hugsanlega að huga að. Stofnunin sinnir því einungis hlutverki sínu sem skráningaraðili umræddra ökutækja.

Sem svar við spurningu númer 2 þá eru ekki gerðar sérstakar menntunarkröfur til þeirra einstaklinga sem meta tjón bifreiða. Í því samhengi má hins vegar taka fram að í skráningarreglum Samgöngustofu er boðið upp á að tjónaskráningu sé breytt þegar gert hefur verið við bifreiðar. Til að slík breyting sé gerð þarf vottorð frá viðurkenndu réttingarverkstæði um viðgerð sem svo er staðfest með skoðun á skoðunarstofu. Viðurkenndum réttingarverkstæðum er því veitt heimild af Samgöngustofu til að gefa út vottorð um að gert hafi verið við tjónabifreið.

Lista yfir viðurkennd verkstæði — og það eru þær kröfur sem gerðar eru til slíkra aðila — er að finna á vef stofnunarinnar. Verkstæðin eru viðurkennd af BSI á Íslandi, British Standard Institution, samkvæmt gæðastaðli Bílgreinasambandsins. Það eru þær kröfur sem gerðar eru til aðila sem að verkefninu koma.

Í verklagsreglum Samgöngustofu er því að finna þær kröfur sem uppfylla þarf til að öðlast viðurkenningu til útgáfu slíkra vottorða. Í öllum tilfellum skal ábyrgðarmaður verkstæðis vera menntaður í bifvélavirkjun eða bifreiðasmíði og ber hann ábyrgð á mælingum og niðurstöðum. Í verklagsreglum er einnig að finna þær kröfur sem gerðar eru til mælinga og mælingaramma en kröfurnar eru uppfærðar eftir því sem ástæða þykir til.

Ég tel að með þessu hafi ég svarað þeim þremur spurningum sem hv. þingmaður bar upp. Ég tek undir með henni að margt í þessu þyrfti hugsanlega að fara ítarlegar yfir. Oft lýtur þetta að ákveðnum hagsmunum þeirra sem eiga eða kaupa slíkar bifreiðar, eðlilega, en ég árétta einnig að margt hefur verið gert til góðs í þessu undanfarin ár og hefur batnað frá því sem fyrir var.