144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

skráning tjónabifreiða og eftirlit.

151. mál
[16:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er rétt að spurningum var svarað en þó ekki að mínu mati að fullu vegna þess að ég get nefnt dæmi um bíla á uppboðum í júlí 2014 þar sem kemur í ljós að ökutæki hefur verið selt til niðurrifs. Þá er á því lás, þ.e. niðurrifslás. Hann hefur verið rofinn og ökutækið selt, við það gert og það sett aftur á markað. Það er í raun brot gegn þeim lögum sem hæstv. ráðherra vitnaði í. Það er þetta eftirlit sem mig langar að biðja hæstv. ráðherra um að skoða frekar í ráðuneyti sínu og fara yfir.

Bifreiðar sem hafa verið metnar þannig að þær ættu að fara í niðurrif, en lásinn hefur verið rofinn, gert hefur verið við þær einhvers staðar og þær eru síðan seldar og fara aftur út á markað, eru ekki bara hættulegar þeim ökumanni sem ekur slíkri bifreið heldur öllum öðrum líka. Þess vegna langar mig að biðja hæstv. ráðherra að skoða þá hugmynd að setja á laggirnar faggilta skoðunarstofu á ökutækjasviði sem væri kostuð af þeim sem þjónustunnar nyti, sem jafnframt bæri að hafa slíkt eftirlit, svo við stöndum ekki uppi með að tjónabifreiðar til niðurrifs séu á götum samfélagsins, bílstjóra (Forseti hringir.) slíkrar bifreiðar sem og öðrum til tjóns.