144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

Húsavíkurflugvöllur.

227. mál
[16:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um Húsavíkurflugvöll. Því miður þarf ég að leggja hana fram aftur. Ég lagði hana fram í fyrra og man eftir því hvað ráðherra sagði þá um það sem ég spurði um, en nú hef ég breytt spurningunni aðeins.

Hún er í fyrsta lagi þessi: Stendur til að taka Húsavíkurflugvöll í Aðaldal inn í grunnflutningsnet samgönguáætlunar og semja til framtíðar við Isavia um rekstur hans?

Í öðru lagi: Telur ráðherra koma til greina að leita samninga við sveitarfélagið Norðurþing um að taka yfir rekstur vallarins og leggja til hans fé sem dygði til rekstrar hans?

Þetta er sett fram, virðulegi forseti, vegna þess að ég hef þá skoðun að miðað við erfiðleika ríkisins við að reka ýmsa flugvelli á landinu og standa sig í uppbyggingu þar komi fyllilega til greina að fela sveitarfélögum að taka reksturinn yfir, en auðvitað með því að fullnægjandi fjárveiting fylgi með. Ég nefni sem dæmi að í minni tíð sem samgönguráðherra var samið við litlu Þórshöfn á Langanesi um rekstur vallarins þar og við heyrum ekkert annað en að þar gangi vel.

Virðulegi forseti. Til að fylgja eftir þessum spurningum er Húsavíkurflugvöllur í Aðaldal notaður núna til áætlunarflugs af Flugfélaginu Ernir sem flýgur margar ferðir á viku og er hann mikið notaður. Hins vegar gerist oft og gerðist nýlega í kjördæmaviku að fulltrúar Norðurþings, sveitarstjórnarmenn, ræddu við okkur þingmenn um völlinn og það að hann virtist ekki fá fastan samning inn í grunnflutningsnetið og að ekki virtist ganga að fá fjárveitingu frá ríkinu í gegnum samning við að koma upp og endurnýja aðflugsvita og fjarlægðarmæli; nokkuð sem ég átti samræður um við hæstv. innanríkisráðherra fyrir ári síðan og þá var talað um að það kostaði 60 milljónir og hún vonaðist til að það gengi eftir.

Ég spyr því enn og aftur um aðflugsvitann og fjarlægðarmælinn sem eru mjög mikilvægir í þessari starfsemi svo að hægt sé að nota þá daga betur sem falla úr vegna þess að skyggni uppfyllir ekki lágmarkskröfur þegar enginn stefnuviti er og enginn aðflugsviti. Þetta er bagalegt og er auðvitað ekki gott fyrir rekstur. Þar að auki er komið á viðhaldslistann viðgerð og endurbætur á aðflugsljósum.

Sveitarstjórnarmenn í Norðurþingi töluðu um við okkur þingmenn til að leggja áherslu á að Húsavíkurflugvöllur í Aðaldal fengi fastan sess í grunnflutningsneti samgönguáætlunar með sérþjónustusamningi milli ríkisins og Isavia. Það er fyrri spurning mín, virðulegi forseti. Eftir að reglubundið áætlunarflug hófst árið 2012 er völlurinn, eins og áður hefur komið fram, mikið notaður sem eykur auðvitað lífsgæði íbúa í Þingeyjarsýslu og tækifæri í ferðaþjónustu.

Virðulegur forseti. Ég ætla að minna líka á að innan skamms, vonandi, verður gengið frá endanlegum samningum um uppbyggingu á Bakka, (Forseti hringir.) stóruppbyggingu þar, þannig (Forseti hringir.) að mikilvægi flugsins og þessa flugvallar verður enn meira.