144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

Húsavíkurflugvöllur.

227. mál
[16:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég geri mér alveg grein fyrir því og er vel meðvituð um það að staðan í innanlandsflugi, þróun þess og stórar ákvarðanir sem lúta að framtíðaráformum eru á nákvæmlega þessum tímapunkti nokkuð erfiðar og hafa verið snúnar á umliðnum missirum vegna þeirrar fjárhagsstöðu sem við stöndum frammi fyrir. Okkur greinir svo sem ekki á um það. Þess vegna er einnig hárrétt hjá hv. þingmanni að verið hafa ákveðnar tafir vegna aðgerða sem við hefðum þurft að fara í víða um land á flugvöllum því að það hefur verið erfitt að fjármagna grunnstarfsemi þessa mikilvæga nets okkar.

Ég þakka líka hv. þingmanni fyrir það með hvaða hætti hann nálgast verkefnið. Ég veit að hann er, eins og ég, áhugasamur og reiðubúinn til þess að ræða aðra kosti hvað varðar skilvirkan rekstur flugvalla á landsbyggðinni en ekki bara hinar hefðbundnu leiðir, þar með talið með mögulegri rekstraraðkomu eða samstarfi annarra en ríkisins sjálfs.

Fyrst er auðvitað að nefna það að Húsavíkurflugvöllur er í dag, eins og hv. þingmaður nefndi, nýttur sem áætlunarflugvöllur og því er eðlilegt að flugvöllurinn sé í grunnnetinu á meðan stundað er áætlunarflug um völlinn. Rekstur flugvallarins hefur verið með þeim hætti sem þingmaðurinn lýsti samkvæmt þjónustusamningi milli Isavia og innanríkisráðuneytisins.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns hvort komi til greina að leita samninga við Norðurþing um að taka yfir rekstur flugvallarins þá er stutta svarið við þeirri spurningu: Já. Það kemur vel til greina að ræða við sveitarfélagið eða aðra sem áhuga hafa á að koma að rekstri og jafnvel meiri uppbyggingu vallarins. Það á við um aðra flugvelli hér innan lands. Það kemur alveg til greina að nálgast þau verkefni með aðeins öðrum hætti en hefur verið gert.

Lengra svarið við spurningunni er hins vegar: Við þurfum að tryggja í slíkum rekstri að annars konar fyrirkomulag verði að fylgja sömu ströngu skilyrði og við setjum nú og áfram sú krafa að menn uppfylli allar grundvallarkröfur um öryggi, varnir, viðhald o.s.frv. Það er auðvitað hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að slíkt yrði illa gert án aðkomu ríkisvaldsins, en hugsanlega gætum við náð einhvers konar samlegðaráhrifum af slíkum rekstri.

Ég vildi líka árétta það sem þingmaðurinn spurði um varðandi aðflugsvitann og fjarlægðarmælana og annað sem þarf og þyrfti að vera búið að koma upp á þessu svæði. Líkt og ég nefndi á sínum tíma er það metið á nokkra tugi milljóna. Miðað við stöðuna sem verið hefur í innanlandsfluginu, þar sem við erum með í kringum 200 milljónir eða minna sem við þurfum einungis í rekstur vallanna, þá höfum við einfaldlega ekki náð með nægilega metnaðarfullum hætti að halda úti þeim þáttum sem verða að vera á þessum flugvöllum til að þeir séu öruggir, enda hef ég upplýst þingið um það að við frestuðum útboðum hvað varðar framtíðarþjónustu á þessu neti okkar fram að áramótum þegar við sjáum hver staðan er.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt um þessi mál að ég vona að okkur takist aðeins betur til, en ég vona líka að við höfum hugrekki til þess að nálgast verkefnin þannig að hugsanlega verði farið í samstarf við sveitarfélög eða aðra uppbyggingaraðila á viðkomandi stað. Við höfum reynt það og það hefur gengið upp annars staðar.