144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Suðurkjördæmi.

325. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldið var á dögunum kynnti Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður drög að skipulagi fyrir þær breytingar sem embættið stendur frammi fyrir. Hún fór í byrjun yfir þær leiðbeiningar sem hún fékk frá hæstv. innanríkisráðherra sem voru að engri starfsstöð ætti að loka, allir starfsmenn ættu að halda vinnunni og þjónusta ætti ekki að skerðast.

Umdæmi sýslumannsembættisins á Suðurlandi spannar stórt svæði sem nær allt frá Ölfusi í vestri að Hornafirði í austri. Á svæðinu búa 22 þús. manns. Það er reyndar til bóta að bæði lögreglustjóraembættið og sýslumannsembættið endurspegli sveitarfélagamörk og kjördæmamörk annarrar stjórnsýslu hvað þetta varðar. Það er gert ráð fyrir sýslumannsembætti og lögreglustjóraembætti á Suðurnesjum þar sem búa einnig um 22 þús. manns og í Vestmannaeyjum er einnig gert ráð fyrir bæði lögreglustjóraembætti og sýslumannsembætti en þar búa tæplega 4.300 manns. Þótt ég nefni íbúatölur er auðvitað augljóst að fleiri þættir ráða en íbúafjöldi einn og sér, t.d. samgöngur og vegalengdir.

Á fyrrnefndu ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fóru fram líflegar umræður um drögin að nýja skipulaginu. Þar efuðust menn um að mögulegt væri að sjá til þess að þjónustan skertist ekki. Harkalegast var gagnrýnt að ekki kæmu auknir fjármunir í kjölfar þess að Höfn í Hornafirði færi undir embætti lögreglustjórans á Suðurlandi. Svo virðist sem ekki verði til fjármunir til að ráða löglærðan fulltrúa þar til að sinna lögbundnum verkefnum. Það vilja Sunnlendingar ekki sætta sig við.

Einnig vildu fundarmenn fá skýr svör við því af hverju nauðsynlegt væri að hafa bæði embætti lögreglustjóra og sýslumanns í Vestmannaeyjum og hvaðan fjármunir til þess væru teknir.

Hefur Suðurlandið kannski minna úr að spila vegna skipulags í Vestmannaeyjum, vildu fundarmenn fá að vita.

Ég spyr því hæstv. innanríkisráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Hvernig miðar breytingum sem verða á starfsstöðvum sýslumanna í Suðurkjördæmi samkvæmt lögum nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði?

2. Hver eru fagleg og fjárhagsleg rök fyrir staðsetningu sýslumanna í kjördæminu?

3. Telur ráðherra að þjónusta sýslumanna verði svipuð og nú eftir breytingarnar?

4. Telur ráðherra að áætlaðar fjárveitingar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 nægi sýslumannsembættunum til að veita sambærilega þjónustu og nú er veitt?

5. Er tryggt að löglærðir fulltrúar verði á þeim starfsstöðvum þar sem áður var sýslumaður?