144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Suðurkjördæmi.

325. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin. Ég skil hana svo að væntingar hennar standi til þess að þjónusta embættanna verði eins góð og áður og jafnvel betri. Ég skil hana þannig að hún geri ráð fyrir að það verði löglærður fulltrúi á Höfn og samkvæmt mínum upplýsingum þarf aukið fjármagn og ég geri þá ráð fyrir því að það komi aukið fjármagn til þess að það gangi upp, enda er gert ráð fyrir í þessu skipulagi varðandi sýsluskrifstofuna á Höfn að þar verði veitt sama þjónusta og á aðalskrifstofu sýslumanns og þá getur maður ekki séð fyrir sér að það gangi upp öðruvísi en með löglærðum fulltrúa.

Hæstv. ráðherra talar um þjónustuna. Ég vil spyrja út í til dæmis umboð Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga sem sýslumenn hafa séð um og þarf að fara fram á öllum stöðum. Þó að ég sjái fyrir mér að því sé þokkalega fyrir komið á Suðurlandi eru annmarkar á því að skjólstæðingar Tryggingastofnunar njóti góðrar þjónustu ef bara horft er til stöðvanna, hvar þær eru settar niður og hvar mannfjöldinn er mestur.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það hafi komið til greina að endurskoða þetta vinnulag, hvort ekki væri nær að Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar væru þarna í samvinnu við Vinnumálastofnun og hætta því fyrirkomulagi sem var sett á laggirnar árið 1989, um samstarf sýslumannsembættanna og Tryggingastofnunar.

Enn og aftur þakka ég fyrir svörin. Ég skil þau svo að áhyggjur Sunnlendinga þurfi ekki að vera svo miklar vegna þess að það komi bæði fjármunir og löglærðir menn til að sinna þessum störfum.