144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Suðurkjördæmi.

325. mál
[16:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að mikilvægt sé, og hér voru nefndar af hv. þingmanni aðrar stofnanir, að við gerum það sem almenningur krefst af okkur í þessu sem er að tryggja að opinber þjónusta, hvort sem það er Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun eða hvað það er, að við náum þeim samlegðaráhrifum sem við getum ef við nýtum það að hafa þetta í meiri samvinnu en verið hefur og að við einhvern veginn náum betur utan um það þannig. Það er hins vegar útfærsluatriði.

Aðalatriðið er að ég skil alveg og ég virði áhyggjur heimamanna þegar við erum að ganga í gegnum svona breytingar. Þær eru eðlilegar og við eigum ekki að taka þeim illa heldur eigum við að skilja að við erum að fara í gegnum ákveðið breytingaferli. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá þingmanni áðan, það náðist góð sátt um verkefnið. Ég legg mikla áherslu á að sú sátt haldi. Ég held að það sé brýnt og tek það á mína ábyrgð, eins og á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þingsins alls, við hétum því þegar við samþykktum þessi lög og þegar þau fóru í gegn að þannig yrði haldið á verkefninu að heimamenn þyrftu ekki að sjá eftir að hafa gengið til samstarfs við okkur um það.

Við verðum að halda það. Það getur krafist mikillar vinnu af okkur og útfærslu og lausnamiðaðri nálgunar en kannski hefur alltaf verið en við verðum að gera það. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á það við alla þá sem tekið hafa við þessum verkefnum sýslumanna að ekki verði brotið það meginprinsipp að fólki verði ekki sagt upp eða að þjónustan minnki. Þá erum við ekki að standa við það sem við gáfum sem fyrirheit í þessari vinnu.

Ég mun leggja mig alla fram við að tryggja það og hef þegar óskað eftir því að ráðstafað verði fjármagni þannig og unnið með það að löglærður fulltrúi verði á Höfn og þegar óskað eftir því varðandi ákveðna þætti í því að við vinnum úr því þannig að það komi vel út fyrir þessi svæði. Ég held að við verðum líka að sýna því skilning, ég þekki umræðuna á fundum landshlutasamtaka sem eðlilega hafa áhyggjur af þessum breytingum, en við höfum átt mjög gott samstarf við þá og ég legg áherslu á að þannig verði það áfram. Ég vona innilega og get fullvissað (Forseti hringir.) þingheim um það að ég mun leggja mig fram um að tryggja að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru.