144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rannsóknir á fiskstofnum á miðsævisteppinu milli Íslands og Grænlands.

201. mál
[17:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum málefnalega umræðu um málið. Ég er sammála niðurlagi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að mikilvægt er að við verjum íslenska hagsmuni og sækjum fram þegar það á við. Ég held reyndar að hv. þingmaður hafi misskilið orð mín áðan ef hann tók þau þannig að ekki komi til greina að í samstarfi ríkis og útgerðanna í landinu mundum við beita okkur fyrir því að gera þetta með skynsamlegum hætti og leita að möguleikum fyrir íslenska útgerð að nýta sér tegundir sem við þekkjum ekki nægilega í dag.

Ég legg hins vegar áherslu á að það þarf auðvitað að gera á vísindalegum grunni og með það markmið að við getum nýtt þá stofna á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Þess vegna er það líka ágætt að hafrannsóknastofnanir í mismunandi löndum standi saman að því. En þegar kemur að því að skapa sér veiðireynslu er það auðvitað rétt að hægt sé að hvetja útgerðina til slíks. Þá þarf útgerðin að hafa burði til þess að geta gert það, fjárhagslega burði, og hafa til þess bæði skip og tíma. Ég tel að allt þetta sé af hinu góða og umræðan kannski fyrst; að velta fyrir sér möguleikum okkar og síðan að gera það sem við getum til að nýta þá.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers hvort við getum tryggt fjárhagsstöðu Hafró með því að úthluta þeim einhverjum hluta af veiðigjaldinu þá hefur það auðvitað ekki verið stefna í ríkisfjármálum síðustu ára að marka sérstakar tekjur. Þær renna til ríkissjóðs og síðan er það þá okkar hér á hinu háa Alþingi að ákveða hvað sé eðlilegt að ríkið, Alþingi, ákveði sem fjárframlag til Hafrannsóknastofnunar. Ég býst við að ég hafi stuðning hv. þingmanna (Forseti hringir.) til að standa ötullega á bak við hafrannsóknir í landinu. (ÖS: Til allra góða verka, ekki hinna.)