144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

haustrall Hafrannsóknastofnunar.

319. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra um framkvæmd haustralls Hafrannsóknastofnunarinnar þetta haustið.

Ástæðan er sú að nú er farin ný leið við framkvæmd þessa haustralls. Allt frá árinu 1996 hefur því verið sinnt af hafrannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni, sem nú liggja bundin við bryggju.

Nú er farin sú leið að þau sinni ekki þessu verkefni, þrátt fyrir yfirburði í útbúnaði og aðstöðu, heldur liggi áfram bundin við bryggju. Sú leið er farin að fela útgerðarfyrirtækjum framkvæmd haustrallsins og til þess lagt kvóta af almannaeigu sem ég fæ ekki betur séð en að sé, þegar allt er talið, miklu dýrari en sem nemur úthaldskostnaði skipanna ef farið hefði verið í það að láta þau sinna þessu haustralli með sama hætti og gert hefur verið hingað til.

Mér skilst, miðað við framkvæmdina haustið 2013, að líklega sé þetta nettóúthaldskostnaður upp á 25 milljónir ef frá er talið væntanlegt aflaverðmæti sem hægt er að koma í verð.

Hér er verið að ráðstafa miklum kvóta í staðinn og ég fæ ekki betur séð en að verið sé að falsa bókhald stofnunarinnar að því leyti að henni er ekki gert kleift að sinna lögbundnu verkefni. Þetta kemur svo sem betur út fyrir hana því að hún þarf ekki að færa hjá sér kostnað vegna framkvæmdarinnar. En það hlýtur að vekja ýmsar spurningar.

Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra hvers vegna ákveðið hafi verið að hafa þennan háttinn á nú. Í annan stað spyr ég: Hver er tilgangurinn með rekstri skipanna ef ekki er gert ráð fyrir að þau sinni haustralli?

Í vorralli hafa togarar einstakra útgerðarfyrirtækja vissulega sinnt verkefnum með hafrannsóknaskipunum en það hefur verið til að ná ákveðnu magni og stærð sem ekki hefur verið hægt að ná með rannsóknaskipunum einum.

Er þá stefnt að því að leggja þau af ef þau sinna ekki þessum grundvallarverkefnum? Hvernig voru útgerðir valdar? Hvert er verðmæti þess kvóta sem útgerðum var afhentur til að sinna þessu verkefni?