144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

haustrall Hafrannsóknastofnunar.

319. mál
[17:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda ágæta fyrirspurn sem gefur tilefni til umræðu hér í þinginu.

Haustrall Hafrannsóknastofnunar er ekki eini grundvöllur ákvörðunartöku um leyfilegan heildarafla. Upplýsingar sem þar fást, líkt og upplýsingar úr netaralli og upplýsingar um aldurssamsetningu fisks úr afla fiskiskipa, eru stoðgögn við svokallað vorrall sem er umfangsmesta rannsókn sem gerð er á ástandi fiskstofna hér við land og er grundvöllur útreikninga við stofnstærðarmat og aflaráðgjöf eins og þingmenn þekkja.

Rekstur Hafrannsóknastofnunar er á fjárlögum eins og rekstur annarra ríkisstofnana og fjármagna þarf margar mikilvægar hafrannsóknir. Það er forstjóri Hafrannsóknastofnunar sem ber ábyrgð á forgangsröðun verkefna miðað við þá fjármuni sem stofnunin hefur úr að spila á hverjum tíma.

Eins og kunnugt er hefur stofnuninni verið nokkuð þröngur stakkur sniðinn allt frá árinu 2009. Þannig hefur rekstrarfé stofnunarinnar skroppið saman um 700 milljónir frá 2008. Við forgangsröðun verkefna fyrir þetta starfsár var sú ákvörðun tekin innan stofnunarinnar að fara ekki í haustrall þar sem önnur verkefni voru talin mikilvægari innan þess fjárhagsramma sem stofnuninni er búinn. Þess má geta að í ár er Hafrannsóknastofnun rekin innan þeirra fjárheimilda sem til hennar falla sem er ánægjulegt eftir taprekstrarár.

Þegar fyrrnefnd ákvörðun, að hætta við haustrallið, var kynnt í ráðuneyti sjávarútvegsmála fóru fram umræður um það hvort og þá hvernig væri unnt að gera stofnuninni kleift að fara í þessa gagnasöfnun. Öðrum verkefnum var forgangsraðað framar á tillögu til fjárauka sem ekki þótti koma til greina að stækka.

Nokkuð hefur verið rætt um tækifæri sem kunna að felast í auknu samstarfi við sjómenn við rannsóknir og því þróuðust hugmyndir í þessa átt. Tækifæri þóttu felast í því að skapa möguleika á því að halda í rannsóknina þó að með öðru sniði væri en áður. Því heimilaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stofnuninni að leiðangurinn yrði boðinn út til fiskiskipa þar sem greitt yrði fyrir með aflaheimildum sem stofnunin fengi til ráðstöfunar.

Útboðið fór fram á vegum Ríkiskaupa en útboðsgögn voru unnin í samstarfi Ríkiskaupa og Hafrannsóknastofnunar. Reynsla er af sambærilegum útboðum vegna netaralls og marsralls og byggðist útboðslýsingin á henni. Útboðið var auglýst á vef Ríkiskaupa og í fjölmiðlum og enn fremur kynnt á vef Hafrannsóknastofnunar.

Tilboð voru opnuð þann 19. júní sl. og alls bárust þrjú tilboð í verkið. Tvö þeirra voru í verkefni á grunnslóð og eitt tilboð í verkefni á djúpslóð. Seinna féll svo tilboðsgjafi í verkefni á djúpslóð frá tilboði sínu þar sem hann taldi sig ekki geta framkvæmt verkefnið tæknilega. Niðurstaðan varð sú að tilboði annars fyrirtækisins sem bauð í grunnslóðarverkefni var tekið upp á 320 þorskígildistonn. Við hinn tilboðsgjafann í grunnslóðarverkefnið var aftur á móti samið, á grundvelli þess tilboðs, um að sinna djúpslóðarverkefninu fyrir 466 þorskígildistonn. Samningur vegna grunnslóðaverkefnisins var undirritaður 10. júlí og vegna djúpslóðarverkefnis þann 22. júlí.

Okkur er vel kunnugt um þau fjölmörgu verkefni sem Hafrannsóknastofnun sinnir, jafnt með eigin skipakosti sem og með öðrum skipum í gegnum verktöku. Eins og fyrr er getið þá er verktaka af þessu tagi ekki nýmæli. Netarallið og marsrallið hafa verið nefnd til sögunnar en einnig væri hægt að nefna rannsóknir á rækju, humri, flatfiskum og loðnu. Þessi listi er ekki tæmandi en þetta eru allt dæmi um rannsóknir sem stofnunin sinnir með þátttöku annarra skipa en framkvæmir ekki með eigin rannsóknaskipum.

Þessi leið, sem nú kemur reynsla á, er hugsuð sem tillaga að lausn í þröngri stöðu. Ríkisvaldið þarf vel að merkja, bæði gagnvart Hafró og öðrum fyrirtækjum sínum, að huga vel að þeim rekstrarkostnaði sem þeim fylgir og hvort hagkvæmt sé að halda rekstri einstakra eininga áfram.

Einnig er mikilvægt að velta öllum öðrum möguleikum í stöðunni fyrir sér. Er hagkvæmt að halda rekstri áfram? Á að leitast við að leigja rekstur skipanna í auknum mæli til annarra þjóða og afla þannig tekna til reksturs þeirra, sem við höfum verið að gera? Er hagkvæmara fyrir ríkið að reka færri skip og leigja rannsóknaskip annarra þjóða í einstök verkefni okkar, sem líka væri mögulegt? Hér er að mörgu að huga, mikilvægi rannsókna, viðhaldi þekkingar, kostum samstarfs o.fl.

Í umræðum við fyrri umræðu hér áðan voru flokksbræður fyrirspyrjanda meðal annars að tala um samstarf útgerðar og Hafrannsóknastofnunar, að leita að nýjum tækifærum á nýjum svæðum. Ég tel það mjög mikilvægt. Hér er eitt tækifæri til aukins samstarfs. Það er mikilvægt að sjálfstæði rannsóknar vísindamannanna sé tryggt en hvað varðar tækifærin til að gera þetta með hagkvæmari hætti getum við meðal annars horft til Norðmanna og Færeyinga sem í vaxandi mæli eru komnir með sambærileg tæki. Og af því að hv. fyrirspyrjandi nefndi yfirburði í útbúnaði þá eru komin sambærileg tæki til mælinga í mörg af fiskiskipunum sem safna upplýsingum látlaust og senda beint inn til hafrannsóknastofnana viðkomandi landa. Þetta er eitt af því sem ég tel að við ættum einnig að skoða.