144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

haustrall Hafrannsóknastofnunar.

319. mál
[17:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmenn fara nokkuð offari í túlkunum á ýmsu. Hv. þm. Kristján L. Möller virðist til að mynda hafa skilið orð mín á þann veg að stefna okkar væri að hætta að gera út eigin skip. Það er langt í frá. Við þurfum hins vegar að taka málefnalega umræðu um hversu mörg skip við eigum að eiga og hvernig við eigum að haga samstarfi okkar við aðrar þjóðir, það er síðan allt annað mál.

Ef við horfum til Norðmanna, sem margir gera þessa dagana, láta þeir einmitt aflaheimildir í té fyrir rannsóknir í mun meira mæli en við gerum. Og eins og ég nefndi þá er togararallið ekkert frábrugðið netarallinu eða marsrallinu að öðru leyti, þessi leið hefur oft verið farin.

Varðandi verðmætin eru þær tölur heldur ekki réttar. Ef gengið er út frá upplýsingum frá Fiskistofu er annars vegar verið að tala um 62 millj. kr. og hins vegar um 93 millj. kr. eða alls 155 millj. kr. Á móti því kemur að 30% af aflanum sem kemur um borð fara til Hafrannsóknastofnunar. Þær upphæðir sem hv. þingmenn hafa farið með eru því heldur ekki í réttu samhengi.

Ég held að við eigum fyrst og fremst að horfa á stóru atriðin í þessu. Er skynsamlegt að auka samstarf stjórnvalda, Hafrannsóknastofnunar og greinarinnar? Já, ég held það. Er skynsamlegt að auka samstarf okkar við aðrar þjóðir sem rannsaka fiskimiðin og fá meðal annars tækifæri fyrir okkar hafrannsóknaskip á öðrum slóðum? Ég held að það sé líka skynsamlegt.

Þessi leið, sem valin var í þröngri stöðu, er að mínu mati algjörlega ásættanleg og skynsamleg í því ljósi að hér skapast upplýsingar sem við þurfum vissulega á að halda til að geta undirbyggt fiskveiðistjórn okkar með ábyrgum og sjálfbærum hætti.