144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

innflutningstollar á landbúnaðarvörum.

320. mál
[17:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnirnar. Varðandi það hvað hafi verið unnið til að ná fram lækkun innflutningstolla á landbúnaðarvörum er það svar að á vettvangi EFTA-samstarfsins er stöðugt unnið að gerð fríverslunarsamninga, ýmist nýrra samninga eða endurskoðunar á eldri samningum, með það að markmiði að semja um bættan markaðsaðgang fyrir íslenskar framleiðsluvörur. Í staðinn fyrir bættan markaðsaðgang þurfa Íslendingar að semja um lækkun og/eða afnám tolla. Eins og ég hef oft áður sagt er um tvíhliða og gagnkvæma samninga að ræða.

Sömu sögu er að segja um ýmsar tvíhliða tollaviðræður, svo sem við Evrópusambandið á grundvelli svokallaðrar 19. gr. EES-samningsins, en þær viðræður snúast um sömu markmið og við áttum hér ágætt samtal um fyrr í dag.

Spurt er: Hvaða greiningar hefur ráðuneytið látið gera í kjölfar ábendinga í McKinsey-skýrslunni?

Á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er starfandi starfshópur um tollamál á sviðum landbúnaðar og er að vænta niðurstöðu þess starfshóps á næstu vikum. Hlutverk starfshópsins er eftirfarandi:

Að gera grein fyrir helstu núgildandi samningum um viðskipti með landbúnaðarvörur:

a. Alþjóðlegum samningum WTO um viðskipti með landbúnaðarvörur með hliðsjón af tollum.

b. Tvíhliða samningum, t.d. á grundvelli EES-samnings og EFTA-samnings.

c. Gildandi fríverslunarsamningum.

Þar að auki er grein um þau sóknarfæri sem kunna að vera til staðar í ofangreindum samningum og athugaðir verði möguleikar á gerð tvíhliða samninga við ný lönd og ríkjasambönd og einnig að gera úttekt á þróun tollverndar á helstu landbúnaðarvörum frá 1995.

Starfshópnum er gert að kanna ofangreind atriði með það að markmiði að gefa skýra mynd af viðskiptum með landbúnaðarvörur með hliðsjón af tollum, meta ný tækifæri og meta árangur síðustu ára.

Í starfshópnum eru fulltrúar Landssamtaka sláturleyfishafa, Félags atvinnurekenda, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtaka Íslands, Alþýðusambands Íslands, Samtaka verslunar og þjónustu, auk fulltrúa utanríkisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Ef gagnkvæmar tollalækkanir eru markmiðið, hvernig standa þá viðræður við Evrópusambandið? er spurt.

Eins og við ræddum aðeins í fyrri umræðu hér í dag er óhætt að segja að viðræðurnar séu á viðkvæmu stigi. Hugmyndin er að semja um núlltolla á sem flestum tollalínum og/eða lækkun almennra tolla á viðkvæmum vörum eftir atvikum. Einnig eru uppi hugmyndir um að semja um sérstaka tollkvóta milli aðila.

Síðasti formlegi fundur var haldinn í Brussel 11. október 2013 og þar áður var haldinn fundur á Íslandi 8. mars 2013. Það er rétt að viðræðurnar hafa tekið lengri tíma en upphaflega var áætlað. Þær hófust á haustmánuðum 2011 og hafa staðið með nokkrum hléum síðan þá. Í millitíðinni hafa þó farið fram óformlegar þreifingar og samtöl til að reyna að finna lausnir sem báðir aðilar gætu búið við.

Næsti formlegi fundur hefur verið ákveðinn á Íslandi 12. og 13. febrúar nk. Til stóð að fundað yrði í Reykjavík í september sl. og síðan aftur í desember, en því var frestað að beiðni Evrópusambandsins og hefur ekkert að gera með ríkisstjórn Íslands, gagnstætt því sem hv. fyrirspyrjandi hélt fram.

Varðandi McKinsey-skýrsluna er rétt að þar komu margir áhugaverðir hlutir fram, m.a. um möguleika landbúnaðar á að auka framleiðni sína verulega vegna þess að innviðir þar væru sterkir. Það kom líka fram að eina atvinnugreinin á Íslandi sem er hæf í alþjóðlegri samkeppni um framleiðni er sjávarútvegur og mjög margar aðrar greinar í íslensku atvinnulífi, þar á meðal í verslun og þjónustu, haltra þar langt á eftir.

Hv. þingmaður hefur nokkrum sinnum rætt hér um garðyrkjuna. Það var auðvitað ekki einhliða niðurfelling á tollum þar. Það var gert í stærra samhengi. Til að koma öðrum hlutum út voru þessir tollar felldir niður. Breytingin varð meðal annars sú að framleiðsla á papriku fluttist úr landi og hún er í dag aðeins um 25% af því sem hún var. Á sama tíma og þessar tollabreytingar voru tókst íslenskum garðyrkjubændum að ná tökum á lýsingu og heilsársframleiðslu og gátu þannig svarað eftirspurn íslenskra neytenda eftir þessari hollu og góðu vöru árið um kring. Það er ástæðan fyrir því að þeir náðu gríðarlega góðri markaðsstöðu, sérstaklega í agúrkum, hún er sennilega um 90% í dag, og tómötum. Markaðsstaðan þar er reyndar mun minni, enda er talsvert flutt inn af öðrum tómatvörum. Í tómötum eru enn sóknarfæri. Paprikan hrundi vegna þess að hún svaraði lýsingunni ekki eins vel. Það hefur sem sagt ekkert með tollana að gera. Það verður að horfa á þetta tvennt í samhengi þegar við tölum um breytingarnar sem urðu á garðyrkjunni sem voru vissulega jákvæðar og ágætar.

Það er að ýmsu að huga þegar við göngum þessa leið. Við erum fullviss um að það að fara í gagnkvæmar samningaviðræður eins og ég hef nefnt áður — það fer ekki ein skyrdós inn í Evrópusambandið á núlltollkvótum þótt þá vanti skyr, þeir (Forseti hringir.) vilji fá skyr og verðlauni skyr, sem er frábært, öðruvísi en að samið verði (Forseti hringir.) við Evrópusambandið um tollkvóta.