144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

innflutningstollar á landbúnaðarvörum.

320. mál
[17:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að breytingar á tollaumhverfi garðyrkjunnar séu einmitt ræddar á þann málefnalega hátt sem við hv. fyrirspyrjandi höfum gert núna. Það var ekki eingöngu tollabreytingin sem olli þeirri stöðu sem er uppi, það urðu líka tæknilegar framfarir í greininni. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, menn geta aldrei gengið að því vísu þegar þeir gera stórkostlega miklar breytingar á umhverfinu að ekkert breytist. Það er eiginlega miklu nær að halda því fram að margt muni breytast.

Það eru vissulega tækifæri í öllum búgreinum á Íslandi en við þurfum að horfa á málið í mun stærri mynd.

Nú um stundir eru íbúar heimsins eitthvað um 7 milljarðar, taldir verða um 9 milljarðar innan ekki svo margra áratuga. Á sama tíma mun fjölga í millistétt í heiminum um 3 milljarða, stétt sem fer fram á það að geta borðað meira kjöt og meiri fisk og drukkið mjólk sem og allir hinir. Þrátt fyrir að það fjölgi bara um 2 milljarða mun þörfin á auknum mat nærri tvöfaldast. Það verður 100% aukning frá því sem við erum að framleiða í dag. Auðvitað gætum við gert eitt í því, við gætum minnkað matarsóun. Það er kannski auðveldasta leiðin til að afla þessarar fæðu en við þurfum, ekki síst hér á Íslandi, að taka þátt í því. Með breytingum á loftslagi eru veruleg tækifæri á Íslandi til aukinnar matarframleiðslu og það er áskorun sem við verðum að standa undir, m.a. til að afla matar vegna vaxandi fólksfjölda í heiminum. Það koma 250 þúsund fleiri í mat í kvöld en komu í gærkvöldi og þannig verður það dag frá degi.

Það er margt sem við verðum að horfa til en ekki eingöngu umræðu um niðurfellingu á tollum. Við verðum að horfa á heildarsamhengi hlutanna. Meðal þess mikilvæga í okkar sambandi er að nýta tækifæri til að efla matvælaframleiðslu innan lands, (Forseti hringir.) tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar sem og (Forseti hringir.) atvinnusköpun og útflutningsverðmæti.