144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

fráveitumál.

232. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann gerði vel að koma sem mestu að. Ég fæ þá vonandi svar við síðustu spurningunni í seinna svarinu.

Ég þakka það sem ráðherra upplýsti, annars vegar um endurskoðun á reglugerð og sömuleiðis um að gerð verði úttekt á innstreymi næringarefna. Það tel ég mjög mikilvægt og ég fagna því að það fari af stað. Sömuleiðis finnst mér að samhliða þessu eigi auðvitað að ræða stefnumótun og mögulega aðkomu ríkisins í þessum efnum. Ég tel fullkomin rök til að gera greinarmun á stuðningi ríkisvaldsins, annars vegar þegar um er að ræða þjóðgarða og friðlýst svæði og svæði sem eru okkur sérstaklega mikilvæg af þeim sökum, ég tala nú ekki um ef sömu svæði eru í viðbót fjölsótt af ferðamönnum þannig að álagið sé einmitt að aukast þarna þessi árin.

Í því sambandi má náttúrlega nefna Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Er það svo fráleitt að við lítum á úrbætur á þessu sviði sem hluta af því að bæta úr ástandinu á fjölsóttum ferðamannastöðum? Er það ekki bara ein af undirstöðunum til að slíkir staðir ráði við ástandið? Og er þá nokkuð að því að veita opinbert fé úr þeim sjóðum sem eiga að ganga til úrbóta einmitt vegna vaxandi ásóknar á ákveðna staði?

Það gæti verulega munað um það ef einhverjir fjármunir kæmu úr þeirri átt, þ.e. ef menn komast út úr klúðrinu í augnablikinu um fjármögnun þess þáttar.

Hins vegar væri líka eðlilegt að greina að einhverju leyti á milli sveitarfélaganna inn til landsins sem eru með mun þyngri kröfur á sér um þriðja stigs hreinsun eða hvað það nú er og hinna sem eiga völ á ódýrari lausnum vegna landfræðilegrar legu sinnar.

Að lokum nefni ég endurgreiðsluna á virðisaukaskattinum. Enginn vafi er á því að meðan það fyrirkomulag var við lýði hvatti það — ef hæstv. ráðherra hlustar af því að hann ætlar að svara þessu á eftir — sveitarfélögin áfram, það er alveg á hreinu, að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan. Ég segi sem gamall fjármálaráðherra: Það er útlátalítið fyrir ríkið að endurgreiða virðisaukaskatt vegna framkvæmda sem aldrei yrði af (Forseti hringir.) nema vegna þess að endurgreiðslan er í boði. Það eru ekki mikil útgjöld ef menn ná góðum málum fram í gegnum slíkt.