144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

útvarpssendingar í Kelduhverfi og Öxarfirði.

222. mál
[18:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Í kjördæmaviku okkar þingmanna, þar sem þingmenn fara um kjördæmi sitt og hitta sveitarstjórnarmenn og ýmsa aðra, kemur margt upp. Fyrirspurn mín til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er í framhaldi af fundi með sveitarstjórn Norðurþings sem ræddi við okkur um hlut sem ég tel að eigi ekki að þurfa að setja á dagskrá og ræða við þingmenn, en það hefur oft gerst og er bara þannig og ég er með nokkrar fyrirspurnir til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á þessum fundi um þau mál.

Fyrsta fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta: Af hverju hafa útsendingar Ríkisútvarpsins í Kelduhverfi og Öxarfirði ekki verið bættar eins og Almannavarnir hafa ítrekað óskað eftir?

Það kom fram á þessum fundi að skilyrði útvarpssendinga Ríkisútvarpsins í Kelduhverfi og Öxarfirði hafa verið með eindæmum slök undanfarið. Það er auðvitað sérstaklega bagalegt í ljósi þess hlutverks og þeirrar skyldu sem Ríkisútvarpið hefur sem hlekkur í keðju Almannavarna og er ótækt að þrátt fyrir ítrekaðar óskir almannavarna undanfarnar vikur og í ljósi þeirra atburða sem eru í gangi, þ.e. eldgosið í Holuhrauni norðan við Bárðarbungu, hafi málinu ekki verið kippt í liðinn. Þetta er grunnkrafa, ekki aðeins í hinum dreifðu byggðum, að njóta grunnþjónustu sem tengist Almannavörnum eins og aðrir landsmenn.

Þess vegna var það sem sveitarstjórnarmenn í Norðurþingi færðu þetta í tal við okkur, þetta atriði var eitt af mörgum, og því lagði ég fram þessa fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningamálaráðherra.

Eins og ég segi á í raun ekki að þurfa að taka þetta mál hér upp en ég hef áður þurft að taka upp mál sem varða þetta svæði, m.a. sjónvarpsútsendingu á Raufarhöfn þar sem sagt var að á aðfangadag hefðu menn þurft að fara út í bíl til að hlusta á útvarpið, til að ná sjónvarpsmessunni á aðfangadag, en því var kippt í liðinn fljótlega þar á eftir.

Ég vænti þess að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra komi og segi okkur einfaldlega að búið sé að kippa þessu í liðinn og biðjist þá afsökunar á þeirri töf sem hefur orðið á því að koma þessu í eðlilegt horf.