144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

útvarpssendingar í Kelduhverfi og Öxarfirði.

222. mál
[18:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er úr nokkuð vöndu að ráða. Hv. þingmaður óskar svara um efni sem er í eðli sínu tæknilegt og snýr líka nokkuð að landafræði, þ.e. skipulagi þess hvernig útvarpsmerkjum er dreift. Hitt veit ég að engar líkur eru á því að ég hafi kennt hv. þingmanni nokkuð í landafræði hvað þetta svæði varðar, ég veit að það svæði þekkir fyrrverandi hæstv. ráðherra og núverandi hv. þingmaður vel. Ég hef því alla trú á því að með svarinu hafi hv. þingmaður getað glöggvað sig á þeirri stöðu sem uppi er og þá um leið þeim aðgerðum sem hefur verið gripið til nú þegar, og lýst er í svarinu, til að mæta þeim vanda sem kom upp þegar mastrið féll niður á Viðarfjalli. Ég nefndi það einnig, virðulegi forseti, í ræðu minni að í áætlun Ríkisútvarpsins um frekari úrbætur á svæðinu er að halda áfram að bæta skilyrðin við Kópasker og svo framvegis þannig að það er ekki svo að öllu starfi sé lokið.

Ég skil vel þær áhyggjur sem eru uppi og það svar sem hér var flutt var til þess að hv. þingmaður og fyrirspyrjandi gæti betur glöggvað sig á því hvað nákvæmlega hefði verið gert. (KLM: En er þetta komið í lag?) Ég ítreka, af því hv. þingmaður spyr hvort þetta sé komið í lag, að Ríkisútvarpið er uppi með áætlanir um frekari úrbætur á svæðinu.