144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

205. mál
[18:21]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli sem við erum sammála um að þurfi að laga og gera gangskör að því að bæta, það er einmitt ætlun okkar.

Frá því ég tók við núverandi embætti höfum við í ráðuneytinu átt þó nokkra fundi, ýmist ég sjálf eða mínir starfsmenn, með fulltrúum garðyrkjubænda og verið í góðu samstarfi við þá. Þar hefur verið farið yfir þróun raforkuverðs til garðyrkjubænda, stöðu þeirra í samanburði við aðra raforkunotendur í landinu og hugmyndir sem þeir hafa lagt fram um breytingar á gjaldskrá vegna sölu á raforku til þeirra. Þessi vinna er enn þá í gangi en niðurstöður liggja ekki fyrir að svo stöddu, enda eru til fleiri en ein aðferð við að koma til móts við þessi sjónarmið. Við erum eins og ég sagði í samstarfi við garðyrkjubændur að fara yfir þær leiðir.

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda hefur sú leið verið farin frá árinu 2005 að ríkið hefur greitt niður flutning og dreifingu raforku til garðyrkjubænda. Var í upphafi gert ráð fyrir að niðurgreiðslan næmi 95% af flutnings- og dreifikostnaði raforku. Óskir garðyrkjubænda í samtölum okkar hafa í raun verið í þá veru að taxtinn vegna dreifingu raforku til þeirra verði sambærilegur og þegar niðurgreiðslurnar voru 95% árið 2005. Frá árinu 2005 hefur þetta hlutfall farið lækkandi. Árið 2013 var það komið niður í 76,4% í þéttbýli, 84% í dreifbýli.

Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda hafa framlög til niðurgreiðslna, frá því núverandi ríkisstjórn tók við, aukist á fjárlögum um 44,2 milljónir, eða um 19%, en ekki 12% eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda. Þannig er svo komið í dag að niðurgreiðsluhlutfallið er 87% í þéttbýli og 92% í dreifbýli. Til skoðunar er hjá ríkisstjórninni að hækka niðurgreiðsluhlutfallið enn frekar á næstunni. Þá getum við sagt að við séum að nálgast aftur þetta 95% viðmið sem sett var árið 2005. Þessi þróun undanfarið eitt og hálft ár hefur haft jákvæð áhrif til lækkunar á raforkukostnaði garðyrkjubænda.

Ef við skoðum raforkuverð og samsetningu þess til garðyrkjubænda samanstendur það af þremur þáttum, þ.e. flutningi, dreifingu og svo sjálfri orkunni. Flutningskostnaður er sá sami fyrir alla og ekki hafa verið gerðar athugasemdir við verðlagningu orkunnar. Verkefnið snýr því að dreifingu raforkunnar og hvernig unnt sé að lækka kostnað við þann þátt.

Eins og fyrr segir hefur sú leið verið farin frá 2005 að niðurgreiða þennan mismun til að lækka kostnaðinn. Ég er þeirrar skoðunar að til lengri tíma litið eigum við að skoða aðrar leiðir en niðurgreiðslur í þessu skyni, eða í öllu falli einhvers konar blandaða leið. Samtök garðyrkjubænda hafa komið til okkar með áhugaverðar hugmyndir sem byggja m.a. á sérstöðu greinarinnar varðandi kolefnisfótspor garðyrkjunnar. Við erum að skoða þær hugmyndir með opnum huga og fara yfir hvernig þær geti fallið inn í það regluverk sem við höfum á grundvelli raforkulaga og hvernig þær samrýmast jafnræðissjónarmiðum og öðru.

Ég er bjartsýn á að við finnum lausn á þessu og ítreka að í samtölum mínum við garðyrkjubændur hefur skýrt komið fram að ríkur pólitískur vilji er til að koma til móts við óskir þeirra og umfram allt að tryggja stöðugt og samkeppnishæft rekstrarumhverfi þessarar mjög svo mikilvægu greinar. Það er eins og áður segir tvær leiðir, annars vegar að auka niðurgreiðslurnar með viðbótarframlagi úr ríkissjóði og hins vegar að hafa áhrif á gjaldskrársetningu dreifiveitnanna með því að breyta reglugerð, en það er ólíklegt að okkur takist að lækka gjaldskrá þannig að garðyrkjubændur fái 95% afslátt af flutnings- og dreifikostnaði raforku. Líklegra er því að samfara lækkun á gjaldskrá verði hægt að draga úr niðurgreiðslunum.

Framangreindar hækkanir á niðurgreiðslum vegna gróðurlýsingar um 19% frá því að ríkisstjórnin tók við hafa vissulega haft sitt að segja, en ég tel að við eigum einnig að líta til annarra leiða sem byggja á því að þessi mikilvæga atvinnugrein verði ekki háð árlegum ákvörðunum Alþingis um niðurgreiðslur, heldur starfi á samkeppnisgrunni.

Ég vænti þess að innan skamms getum við kynnt hugmyndir til breytinga til samræmis við óskir garðyrkjubænda án þess að raska þeim grundvallarreglum sem raforkulög okkar byggja á og ítreka þann pólitíska vilja sem er í ríkisstjórninni til að koma til móts við greinina.