144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

205. mál
[18:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fyrir að leiðrétta þá fjárhæð sem hefur komið í niðurgreiðslurnar, það voru ekki um 30 milljónir eins og mig minnti heldur eru það vísast þær 44 milljónir sem hæstv. ráðherra nefndi. Það er jákvætt. Ég skil það þannig að það sé fjármagn sem komi frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, í niðurgreiðslurnar.

Það sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra um var það sem ráðuneyti hennar er að gera, þ.e. flutningsjöfnunarmálið sem hér er inni í þinginu, hvort það sé rétt að með því komi 30 aura álag á hverja kílóvattstund á raforku í garðyrkjunni sem leiði til yfir 20 millj. kr. aukakostnaðar fyrir garðyrkjuna. Samtök atvinnulífsins hafa þegar mótmælt eindregið þessum fyrirætlunum. Mér virðist, ef það er rétt að meðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að reyna að auka niðurgreiðslurnar sé hæstv. iðnaðarráðherra að koma inn með nýjar álögur á raforkukostnaðinn, þá vinni í rauninni hvor höndin gegn hinni ef svo má segja.

Ég vildi þess vegna spyrja ráðherrann hvort ætlunin sé að bæta þá garðyrkjunni þetta sérstaklega eða hvort hún hafi gert einhverjar ráðstafanir til þess. Þegar hún segir að þetta þurfi að laga og gera gangskör að hljótum við að spyrja: Hvenær þá? Því að það voru margir fundir haldnir með garðyrkjubændum fyrir kosningar og ýmsar yfirlýsingar gefnar. Ég vil spyrja að lokum hvað hæstv. ráðherra segir um einföldustu leiðina sem manni hefur virst, að fjarlægja einfaldlega úr lögunum 200 íbúa lágmarkið þannig að stórnotendur að raforku, garðyrkjubændur, sem kaupa jafnvel meira en t.d. (Forseti hringir.) staður eins og Bifröst, fái verð sem þéttbýli en ekki sem dreifbýli.