144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

205. mál
[18:31]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aðeins varðandi þær athugasemdir sem hér hafa komið fram.

Hv. þm. Páll Valur Jóhannsson (Gripið fram í: Björnsson.) Björnsson, afsakið, talar um að það hafi verið ríkur vilji og hafi komið fram í máli okkar beggja, núverandi landbúnaðarráðherra og mínu, á fundi í Aratungu að það þyrfti eitt pennastrik og þetta væri pólitískur vilji. Það er rétt. Jafnvel þótt fjárveitingin sé greidd út af lið í ráðuneyti mínu sem heyrir undir hinn ráðherrann var það að sjálfsögðu sameiginleg ákvörðun okkar að auka niðurgreiðslurnar, sem var það sem garðyrkjubændur óskuðu eftir, það er það viðmið sem þeir vilja nálgast, þetta 95% takmark, á meðan við værum að finna á þessu varanlega lausn.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir spyr af hverju ekki sé búið að leysa þetta. Það er vegna þess að þetta er ekki einfalt mál. Og þingmaðurinn getur gagnrýnt mig fyrir að ræða og reyna að finna lausnir með hagsmunaaðilum en þannig ætlum við að vinna þetta mál, að finna lausn sem allir geta sætt sig við.

Varðandi stórnotendataxtann og að hækka það viðmið er það leið sem ég vil líka skoða og við erum að skoða. Eins og garðyrkjubændur hafa ítrekað bent á nota þeir rafmagn sem samsvarar heilu bæjarfélagi en borga á heimilistaxta. Mér finnst það óeðlilegt. Ég ræddi við þá hvort við ættum ekki að drífa í því að setja slíkan taxta og afnema niðurgreiðslurnar en það var ekki alveg búið að ná saman um það, vegna þess að auðvitað skiptir máli að við náum að draga úr kostnaðinum sem þarna fellur til og ef þeir eru nú þegar að fá afslátt af þessu er spurningin hvaða leið er best til þess.

Ég get ekki komið með nákvæmar tímasetningar. Hvað varðar áhrifin af jöfnunargjaldsfrumvarpinu er (Forseti hringir.) líka verið að skoða það á vettvangi atvinnuveganefndar í meðförum þingsins. Það eru ekki allar garðyrkjustöðvar í þéttbýli, sumar eru í dreifbýli, og því verður að fara yfir það hvernig það kemur niður, en ætlunin er ekki að verð á raforku muni hækka til þeirra.