144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

beinagrind steypireyðar.

223. mál
[18:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Önnur fyrirspurn mín af fjórum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra var líka af tilefni sett fram eftir kjördæmavikuna þar sem bæjaryfirvöld í Norðurþingi ræddu við okkur um steypireyðarverkefnið sem svo má kalla, en segja má að sannkallaður hvalreki hafi orðið á Skaga í Austur-Húnavatnssýslu ef ég man rétt í ágúst 2010. Þá þegar veitti þáverandi ríkisstjórn 5 millj. kr. til Náttúrufræðistofnunar Íslands til að ná í hræið og taka það til vinnslu þannig að varðveita mætti beinagrindina. Safnið hefur þar að auki lagt 4–5 millj. kr. af eigin fé í verkefnið og er ansi ánægjulegt að fylgjast með því hvernig það hefur verið unnið. En síðan fer að koma að því að finna beinagrindinni stað. Þess vegna set ég fram þessa fyrirspurn: Hvers vegna hefur beinagrind steypireyðar sem ráðuneytið hefur umsjón með ekki verið komið fyrir á Hvalasafninu á Húsavík? Og í öðru lagi: Hver eru áform ráðherra um staðsetningu beinagrindarinnar?

Einnig má geta þess að hæstv. ráðherra veitti Hvalasafninu á Húsavík viðurkenningu sem viðurkennt safn nýlega og viðurkenndum söfnum ber að starfa í samræmi við ákvæði safnalaga og hefur safnaráð lögum samkvæmt eftirlit með safnastarfsemi í landinu.

Hvers vegna spyr ég um þetta, virðulegi forseti? Á þetta erindi hingað inn á Alþingi? Já, ég tel svo vera vegna þess að það var þannig í samþykktinni frá 2010 frá þáverandi ríkisstjórn að umhverfisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra var falið það verkefni að ákveða hvað skyldi gera við grindina. Helstu rökin fyrir því að staðsetja hana á Húsavík eru meðal annars þessi:

Hvalasafnið á Húsavík er viðurkennt safn, eins og áður hefur komið fram, og er eina sérhæfða hvalasafnið á Íslandi. Safnið er nú þegar með sterkan rekstur og starfsemi, auk þess að vera eitt vinsælasta safn landsins. Hvalasafnið í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík hefur unnið einstakt frumkvöðlastarf við rannsóknir og fræðslu til almennings um lífríki hvala við Ísland. Húsavík er einn af þekktustu hvalaskoðunarstöðum í heimi og þar sjást m.a. steypireyðar reglulega á Skjálfandaflóa sem er dálítið sérstakt ef ekki einstakt hér við Ísland. Steypireyðargrindin í Hvalasafninu mun því skapa einstakt tækifæri til fræðslu á tegundinni í návígi við lifandi dýr.

Virðulegi forseti. Ég hef þegar lesið upp spurningar mínar tvær og vona að svar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra verði ekki um líffræði vegna þess að við vitum allt um steypireyðina, að þetta sé stærsta spendýr jarðar og geti orðið allt að 200 tonn þegar hún gengur með afkvæmi o.s.frv.

Spurningin er bara þessi: Hvar og hvers vegna er ekki búið að velja grindinni stað á Hvalasafninu á Húsavík?