144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

beinagrind steypireyðar.

223. mál
[18:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið hárrétt, sem hv. þingmaður benti á, mergur málsins er sá að með því að lausn er fundin á því hvar eigi að sýna þessa beinagrind sé komin nokkuð farsæl niðurstaða í þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar að um sé að ræða svo einstakan grip að þegar Náttúruminjasafn Íslands verður komið í sitt framtíðarhúsnæði sé eðlilegt að gripurinn verði þar. Þess vegna var lagt upp með það að búin yrði til afsteypa sem gæti þá verið á Hvalasafninu á Húsavík þannig að hægt væri að nýta áfram þá aðstöðu sem til stæði að byggja upp til að taka á móti þessum dýrgrip.

Hitt er sjálfsagt að hafa í huga að þetta gerist öðru hverju, að stórhveli eins og steypireyðina rekur á land hér á Íslandi. Reyndar eru hræin í mismunandi ásigkomulagi og hér var um óvenjuheillegt eintak að ræða þó að ekki væri það alheilt. Það þarf að gera við hana þannig að hægt sé að sýna hana og það tekur tíma.

Hvað varðar þá sýningu sem verið hefur til umræðu í Perlunni er rétt að hafa í huga að þar koma meðal annars að einkaaðilar sem hyggjast þá fjárfesta í slíkri sýningu. Framlag ríkisins þar til er tiltölulega takmarkað en þá er ekki bara verið að ræða um steypireyðina sem sýningargrip heldur margvíslega aðra sýningarmuni. Mér hefur verið tjáð að það hafi ekki verið forsenda þeirrar sýningar að þessi steypireyður yrði þar.

Ég ítreka að ég tel að hér sé um þannig dýrgrip að ræða að eðlilegt sé að hann verði í því höfuðsafni sem Náttúruminjasafn Íslands á að vera þegar það verður komið í sitt framtíðarhúsnæði.