144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rekstur Hlíðarskóla.

224. mál
[18:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir skýr svör hvað þetta varðar og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu.

Hér hefur meðal annars komið fram að þessu máli hefur verið reddað nokkrum sinnum við 3. umr. fjárlaga. Ég geri mér ekki alveg nákvæmlega grein fyrir hvers vegna það er í þessum farvegi, en ég tók eftir því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra vísaði málinu eiginlega alveg yfir á velferðarráðuneytið. Þá er spurningin hvort eigi að eiga við hæstv. heilbrigðisráðherra, sem situr hér í hliðarsal, eða hæstv. félagsmálaráðherra. Úr því þarf ég að vinna og mun þá fylgja þessu eftir með spurningu í framhaldi af þessari ágætu umræðu sem hefur upplýst málið mjög mikið. Ég ætla að eiga samtal við annan hvorn þessara ráðherra um þetta mál vegna þess að svona á þetta ekki að ganga. Málið á ekki að vera í svo lausu lofti að það séu einhverjar reddingar við 3. umr. fjárlaga. Mér er alveg sama hvort það er á þessu kjörtímabili eða því síðasta. Það hlýtur að vera hægt að hafa samtal milli ráðuneyta og koma þessu í fast form eins og gert er annars staðar, t.d. í þeim ágæta skóla sem Brúarskóli er — ég tek fram að ég veit ekkert nema gott um þá starfsemi sem þar er.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi jafnt yfir alla að ganga, sama hvort það er rekstur á vegum Akureyrarbæjar eða sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Ég ítreka þakkir fyrir svar ráðherra og mun snúa mér til velferðarráðherranna, annars hvors eða beggja, um sama atriði sem hér er til umræðu og athuga þá í leiðinni hvort þetta sé fast einhvers staðar í kerfinu og Akureyrarbær sé í raun í viðræðum eða líti kannski svo á að mennta- og menningarmálaráðuneyti sé lykilatriði í þessu en það er þá velferðarráðuneytið eins og hér hefur komið fram.