144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

228. mál
[19:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Enn á ný vil ég koma fram þakklæti mínu til hv. þingmanns vegna fyrirspurnar hans.

Í fjárlagafrumvarpi 2015 voru boðaðar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi og skipulagi framhaldsskóla líkt og var gert í fjárlögum fyrir árið 2014. Ástæða til breytinganna kemur til af fækkun nemenda á framhaldsskólastigi. Hana má rekja m.a. til fámennari árganga upp úr grunnskólum, minnkandi aðsókn í framhaldsskólanámið en dregið hefur úr innritun í skólana og virðist sá kúfur sem kom inn í framhaldsskólana í kringum hrun vera að fjara út. Bætt atvinnuástand og hækkandi laun spila hér nokkuð inn í, ásamt því að tekin hefur verið sú ákvörðun að horfa til þess að hækka nemendaframlagið og gera um leið þá kröfu að þeir sem eru eldri en 25 ára og eru í bóknámi leiti annarra leiða sem nú er búið að byggja upp fyrir þann hóp og noti þær til menntunar.

Áframhaldandi fækkun nemenda er fyrirséð næstu árin og eru almenn áhrif hennar á framhaldsskólakerfið fyrst og fremst þau að hækkun verður á framlögum á hvern ársnemanda að öðru óbreyttu. Í heildina á fjárhagur skólanna þannig að rýmka og að þeir verði betur í stakk búnir til að halda úti fjölbreyttu námsframboði sem stenst gæðaviðmið um góða þjónustu.

Rétt er að hafa í huga, virðulegi forseti, að íslenska framhaldsskólakerfið stendur býsna veikt á allan alþjóðlegan mælikvarða. Námsframvinda í kerfinu er einhver sú lakasta sem þekkist innan OECD og brottfall er gríðarlega mikið í öllum alþjóðlegum samanburði. Augljóst er að gera þarf breytingar á þessu fyrirkomulagi okkar til að efla menntun í landinu.

Undanfarin ár hafa fámennir skólar á landsbyggðinni glímt við nemendafæð, stöðuga nemendafækkun eða sveiflur í nemendafjölda og neikvæðar afleiðingar verið viðvarandi. Fáir nemendur hafa staðið undir föstum útgjaldaliðum svo sem húsnæði og launum skólameistara, auk þess sem skólarnir hafa fengið sérstakt framlag vegna staðsetningar og stærðar. Nefna má sem dæmi að Menntaskólinn á Akureyri fær um 938 þús. kr. á nemanda, en Framhaldsskólinn á Húsavík 1.531 þús. kr. á nemanda í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 þótt hlutfall bóknáms og verknáms sé það sama í skólunum. Hafi framlög ekki staðið undir rekstri hefur verið gripið til tímabundinna aðgerða, t.d. að halda framlögum óbreyttum þótt nemendunum fækki. Framhaldsskólinn á Húsavík hefur t.d. fengið framlög á síðustu árum miðað við að þar séu 136 nemendur í fullu námi þegar þeir hafa í raun verið 96 árið 2013, 111 árið 2012, 114 árið 2011 og 117 árið 2010 og 132 árið 2009.

Nemendafæð hefur gert það að verkum að stjórnun, lögbundin stjórnsýsla og stoðþjónusta, hefur lagst á fámennt starfslið. Skólarnir hafa átt erfitt með að ráða menntaða fagkennara og afleysingakennara, sérstaklega í fullt starf. Sérhæfðir áfangar á efri hæfnisþrepum hafa verið felldir niður, en séu þeir kenndir eru þeir dýrir því hópar eru fámennir. Stundum hefur verið gripið til þess að kaupa fjarkennslu.

Til að bregðast við því viðvarandi ástandi sem hér er lýst og því að enn mun fækka í árgöngum sem koma upp úr grunnskóla víða á landsbyggðinni næstu árin, er nú unnið að áætlun um samvinnu og/eða sameiningu framhaldsskólanna. Verið er að meta hvar þessi úrræði geta nýst og ekki er lagt upp með fyrir fram mótuð áform hvað það varðar. Ætlunin er ekki að leggja niður starfsemi á þeim stöðum þar sem framhaldsskólar eru starfræktir, heldur þvert á móti að styrkja starfsemina á viðkomandi stað. Markmiðið er að framhaldsskólanemendur hafi greiðan og tryggan aðgang að fjölbreyttu námsframboði af sem mestum gæðum og sem næst sinni heimabyggð. Um það snýst málið, virðulegi forseti, um menntun ungmennanna, aðgengi þeirra að fjölbreyttri menntun við hæfi. Það á að hafa sem minnst áhrif í því máli hvar búseta þeirra er.