144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

228. mál
[19:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir það ekkert fagnaðarefni að heyra boðskap hæstv. ráðherra. Hann er enn við sama heygarðshornið að vega að framhaldsmenntun í landinu. Við vitum að þessir litlu skólar eru á vissan hátt frjómagn sinna heimabyggða. Við getum nefnt Menntaskólann á Tröllaskaga, Fjölbrautaskóla Snæfellinga og fleiri sem fara verst út úr niðurskurði nemendaígilda, þeir munu tæpast lifa þessa aðför af.

Ástæðan fyrir því að þessir skólar fara svona illa út úr þessu er að með tilkomu þeirra hefur skapast tækifæri í heimabyggð fyrir framhaldsnám í fyrsta skipti í sögunni og sameining mun kippa þeim grunni undan skólunum. Þeir gegna líka mikilvægu hlutverki í að sinna dreifnámi og fleiru. Ég hlýt að spyrja: Hver er framförin sem felst í því að meina fólki (Forseti hringir.) yfir 25 ára aldri á þessum stöðum að sækja framhaldsskóla í heimabyggð og segja því að það eigi frekar að fara í háskólabrú einhvers staðar annars staðar á landinu? (Forseti hringir.) Það er ekki einu sinni látið fylgja fé til slíkrar starfsemi sem er miklu dýrari og óhagkvæmari (Forseti hringir.) fyrir samfélagið í heild.