144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

228. mál
[19:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns. Ég vil segja í upphafi að skólastarfsemi er ekki rekin til þess að gleðja hv. þingmann heldur er hún sérstaklega og einvörðungu til að tryggja það að nemendur hafi aðgang að góðu námi og hafi fjölbreytta námsmöguleika. Það gefur augaleið að í mjög fámennum litlum stofnunum er hætta á því að ekki sé um nægilegt val að ræða fyrir nemendur og ekki sé hægt að halda uppi nægilega faglega góðum úrræðum fyrir nemendur til að tryggja að þeir fái bestu menntun.

Það er einungis verið að ræða þessa spurningu: Hvernig tryggjum við hag nemenda? Hvort sem við gerum það með auknu svæðisbundnu samstarfi eða sameiningu skólanna eru hagsmunir nemenda látnir ráða för.

Hvað varðar þá skoðun sem hér kom fram að um niðurskurð til framhaldsskólakerfisins væri að ræða þá er hún röng. Ég veit að hv. þingmaður kann að lesa úr fjárlögum og sér að þetta er ekki niðurskurður heldur þvert á móti, það er verið að auka framlagið til framhaldskólans. Það er hárrétt að verið er að segja þeim sem eldri eru og eru í bóknámi að það er búið að byggja upp í það minnsta tvö önnur kerfi sem nýtast mjög vel og geta nýst mjög vel fyrir þann hóp og þar með eru teknir þeir fjármunir sem þar er um að ræða og settir aftur inn í skólakerfið. Virðulegi forseti. Það þýðir að við förum úr þeirri stöðu sem menn voru komnir í fyrir örfáum árum þegar framlag á hvern nemanda í framhaldsskólakerfinu var komið niður í algjörlega óásættanleg mörk, um 900 þús. kr. á nemanda á verðlagi ársins í ár. Það er þá núna komið yfir 1 milljón, verður 1.090 þús. kr. á hvern nemanda. Ég minni á, virðulegi forseti, að framlag á grunnskólanemanda er 1,5 millj. kr.

Það er því algjörlega rangt sem hér er haldið fram að þetta sé gert til að spara fjármuni. Þetta er til að komast úr óásættanlegri stöðu, og hv. þm. Kristján Möller var í hópi þeirra sem báru ábyrgð á henni með því að skera niður framlög til framhaldsskólans um 2 milljarða á síðasta kjörtímabili og fjölga nemendum og veikja þar með allt skólastarf í landinu. (Forseti hringir.) Enda er íslenski framhaldsskólinn í þeirri stöðu að námsframvinda þar er einhver sú lélegasta í OECD-ríkjum og, virðulegi forseti, brottfall gríðarlegt. (Forseti hringir.) Ætli það hafi ekki eitthvað að gera með framlag á hvern nemanda, virðulegi forseti? (Gripið fram í.)