144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

Háskóli Íslands og innritunargjöld.

318. mál
[19:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini hér tveimur spurningum til hæstv. menntamálaráðherra er varða Háskóla Íslands og þær fjárveitingar sem hann fær til að standa undir þeirri þjónustu sem honum er gert að veita.

Í fyrsta lagi er spurt hvenær Háskóli Íslands muni njóta til fulls innheimtra innritunargjalda. Við urðum fyrir því í fyrra að ríkisstjórnin stóð fyrir hækkun innritunargjalda sem hins vegar skiluðu sér ekki til fulls til Háskóla Íslands. Nettóniðurstaðan af því er sú, eftir hækkunina úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr., að einungis um 40 milljónir renna til Háskóla Íslands en 180 í ríkissjóð. Þarna er því búinn til nýr skattstofn til þess að afla tekna fyrir ríkissjóð sem nemur næstum því 200 milljónum, sem leggst á stúdenta af öllum þjóðfélagshópum í landinu.

Þessi ríkisstjórn hefur nú sýnt nokkra hugkvæmni í að hlífa þeim sem mest hafa milli handanna við skattlagningu, en það hlýtur að vera hámark öfugþróunar í skattlagningu að búa til nýjan skattstofn og leggja sérstakar álögur á stúdenta umfram aðra landsmenn. Ég geng því út frá því að þetta hljóti að vera tímabundið ástand og spyr hæstv. ráðherra hvenær áætlað sé að háskólinn fái notið innritunargjalda til fulls í sínum rekstri, enda ófært að leggja á innritunargjöld, sem í reynd eru skattur. Innritunargjöld eiga að standa undir kostnaði við innritun og við rekstur hennar en ekki vera skólagjöld í eiginlegum skilningi og hvað þá sérstakur skattur í ríkissjóð.

Í annan stað spyr ég hvenær komi til þess að greitt verði með öllum nemendum háskólans. Í ályktun háskólaráðs vegna fjárlagafrumvarpsins er vakin athygli á því að sú reikniaðferð sem notuð hafi verið af stjórnvöldum undanfarin ár til að áætla fjölda ársnema í fjárlögum hafi verið aftengd. Reiknireglan byggi á vegnu meðaltali fjölda ársnema undanfarinna þriggja ára. Allar áætlanir háskólans gangi út frá því að þessi reikniregla sé notuð en þannig vanti 440 milljónir í kennslufjárveitingu til Háskóla Íslands fyrir árið 2015, sem samsvarar því að ekki sé greitt með 500 ársnemum. Það er því hin spurningin til hæstv. ráðherra: Hvenær er gert ráð fyrir því að greitt verði með öllum nemendum háskólans?