144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

Háskóli Íslands og innritunargjöld.

318. mál
[19:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Þá er til að taka að skrásetningargjöldum sem ríkisháskólarnir innheimta er ætlað að standa undir ýmsum kostnaði vegna nemenda sem snýr ekki beint að sjálfri kennslunni. Í forsendum fjárlagafrumvarps 2015 er gert ráð fyrir að Háskóli Íslands innheimti 922,7 millj. kr. í skrásetningargjöld vegna 12.302 einstaklinga. Ekki er gert ráð fyrir öðru en að Háskóli Íslands, sem og aðrir ríkisháskólar, njóti innheimtra skrásetningargjalda að fullu.

Virðulegi forseti. Um þetta mál hefur í nokkur skipti verið rætt hér í þingsalnum og ég hef í hvert skipti sem málið hefur komið upp útskýrt nákvæmlega hvað er á ferðinni; sambland annars vegar þessarar aðgerðar og hins vegar þeirrar niðurskurðarkröfu sem skólarnir hafa síðan staðið frammi fyrir og hvernig þetta er síðan jafnað út í framlaginu. Ég vísa því hv. þingmanni til þeirra þingskjala þar sem útskýringar á þessu koma nokkuð nákvæmlega fram.

Hvað varðar aðra spurninguna, þá sem hv. þingmaður lagði fram, er rétt að taka fram að við útreikning á framlögum til kennslu er notast við veginn meðalfjölda reiknaðra ársnema síðustu ára og spá fyrir yfirstandandi ár. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins 2015 vega ársnemar 2012 20%, ársnemar 2013 vega 60% og spá skólans fyrir 2014 vegur 20%. Útreiknað viðmið fyrir Háskóla Íslands samkvæmt þessari aðferðafræði er 9.333 ársnemar. Frá þessu viðmiði eru gerðar tvær leiðréttingar og vil ég nú geta þeirra, virðulegi forseti.

Þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki skilgreint þróun í nemendafjölda á milli ára sem hagræna stærð er ljóst að aukning í nemendafjölda leiðir ekki sjálfkrafa til hækkunar á fjárheimild til að greiða fyrir fjölgun ársnema. Því þurfti að breyta útreiknuðum viðmiðum um ársnemafjölda í reiknilíkani til að aðlaga það að niðurstöðum líkansins í samræmi við fjárheimildir kennsluframlags síðasta árs. Við þessa aðgerð var viðmið lækkað um 331 ársnema.

Í öðru lagi fékk Háskóli Íslands á sig sambærilega hagræðingarkröfu og aðrir háskólar, 152,8 millj. kr. Hagræðingarkröfunni var hægt að mæta með tvennum hætti, annars vegar með því að lækka einingaverð reikniflokka í reiknilíkani og greiða þannig minna með hverjum ársnema, hins vegar með því að fækka þeim ársnemendum sem greitt er með en láta verðin halda sér. Síðari kosturinn var valinn og leiðir það til lækkunar á viðmiði um 201 ársnema. Ég vænti þess að það sé þá ljóst að hægt hefði verið að nálgast þetta með öðrum hætti með því að lækka einingaverðin.

Ástæðan fyrir því að seinni kosturinn var valinn er sú að lengi hefur legið fyrir að styrkja þarf rekstrargunn háskólanna með því að hækka þau framlög sem greidd eru með hverjum ársnema en framlögin hafa farið lækkandi á undanförnum árum sé litið til þróunar verðlags. Að láta hagræðinguna nú koma fram með því að lækka verðin enn frekar þótti óverjandi. Slík ákvörðun hefði auk þess stangast á við áform ráðuneytisins um að styrkja rekstrargrunn háskólanna en í fjárlagafrumvarpi 2015 eru verð tiltekinna reikniflokka hækkuð umtalsvert í því skyni og hækka framlög til Háskóla Íslands um 302,4 millj. kr. vegna þessa.

Af framansögðu er ljóst að Háskóli Íslands fær ekki greitt fyrir alla þá nemendur sem stunda nám við skólann. Í þessu sambandi verður þó að benda á að það er á valdi skólans að stýra fjölda innritana í skólana hverju sinni umfram viðmið fjárlaga.