144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

flutningur heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga.

311. mál
[19:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þekki ágætlega til þess verkefnis sem hv. fyrirspyrjandi vitnar til um rekstur heilsugæslunnar á Akureyri. Ég rak það verkefni frá árinu 1998–2007. Á því tímabili urðu mjög mikil tímamót í rekstri sveitarfélagsins á þeirri mikilvægu þjónustu sem heilsugæslan er. Sveitarfélagið Akureyri tók við þessu verkefni 1996 á grundvelli laga um reynslusveitarfélög. Þau lög runnu út á árinu 2003. Það eru engin tilraunaverkefni í gangi. Þau lög runnu sitt skeið á árinu 2003. Frá þeim tíma hefur þetta einfaldlega verið rammasamningur á milli sveitarfélagsins og viðkomandi ráðuneytis. Það er ekki rétt að þetta sé eina verkefni sem hafi verið í gangi, Höfn í Hornafirði rekur heilsugæsluna áfram og jafnframt er samningur áfram um málefni aldraðra á Akureyri.

Reynslan af þessum rekstri til ársins 2003 var ekki nýtt eins og þetta var í upphafi hugsað með lögunum um reynslusveitarfélög 1996, til þess að taka ákvarðanir af hálfu stjórnvalda um það hvort slíkur rekstur ætti að færast alveg yfir til sveitarfélaganna eða ekki, heldur var reynt að framlengja þetta og hefur verið gert með nokkru millibili á grundvelli þjónustusamninga. Þar er verkaskiptingin mjög skýr. Sá sem tekur að sér verkefnið fær ákveðna fjárveitingu frá ríkissjóði. Honum er ætlað að útfæra verkefnið á þeim grunni.

Þegar maður lítur yfir hvernig þetta hefur gengið sér maður það að hægt og bítandi hefur afkoma af þessu verkefni, þessum samningi sveitarfélagsins við ríkið, verið að versna, ár frá ári. Ég kann ekki nákvæmar skýringar á því en það er alveg ljóst, eins og tölur mínar segja sem þingmenn kjördæmisins fengu frá bæjarfulltrúum á Akureyri, að þar eru skattgreiðendur á Akureyri að greiða með þessu verkefni töluvert háar fjárhæðir og sérstaklega á árabilinu 2008–2013.

Varðandi það sem lýtur síðan að yfirfærslu þessara málaflokka til sveitarfélaga er ég alveg til í að skoða alla þætti í þeim efnum, en þá þarf nauðsynlega að skilgreina betur ábyrgð og hlutverk þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið á að veita og hvað ríkið á að gera, því að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð verður með einhverjum hætti að fara sama. Það ber hins vegar að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem sveitarfélögin hafa sett fram í þessu máli. Samtök sveitarfélaga hafa verið mjög afdráttarlaus og þau hafa lýst því á þann veg að um frekari forsendur fyrir yfirfærslu annarra verkefna til sveitarfélaga verði ekki að ræða fyrr en uppgjör eða úttekt á yfirfærslu málefna fatlaðra sé lokið frá ríki til sveitarfélaga og sú vinna stendur enn yfir.

Ég vil sömuleiðis minna á orð formanns Sambands sveitarfélaga sem hann lét falla á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og voru á þann veg að næst þegar verkefni verða færð frá ríki til sveitarfélaga verði fyrst gengið frá laga- og kostnaðarramma og ríkinu gert að reka málaflokkinn samkvæmt þeim ramma sem þar yrði dreginn í tiltekinn tíma áður en verkefnið færðist yfir til sveitarfélaganna. Þetta er ákveðin stefnumörkun sem hlýtur að setja umræðuna um yfirfærslu mála frá ríki til sveitarfélaga í annað ljós en við höfum verið að ræða hingað til. Þetta krefur okkur um miklu nákvæmari útfærslu á þeim hugmyndum sem við erum og þurfum að ræða til þess að koma þessu yfir.

Ég vil líka minna á það í ljósi umræðunnar um heilsugæsluna sérstaklega að núverandi stefna og lagaumhverfi byggir á því að allir sjúkratryggðir eigi að hafa aðgang að vel skilgreindri heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og aldri, og hún byggir því á því að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á heilbrigðisþjónustu hins opinbera sé á einum stað og allir sjúkratryggðir í sambærilegri stöðu eigi að fá sambærilega þjónustu. Þegar við förum að ræða það hvernig þetta verði flutt yfir til sveitarfélaganna þá er það mjög vandasöm umræða og verður mjög vandasamur tilflutningur, en hann er gerlegur. Ég leyfi mér að fullyrða að það tekur mjög langan tíma að vinna niður allar skilgreiningar í þessu og síðan mun það taka einhver ár ef það á að bregðast (Forseti hringir.) við þessari nýju stefnumörkun sem formaður sambandsins gerði að umtalsefni á (Forseti hringir.) fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.