144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

flutningur heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga.

311. mál
[20:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er vissulega rétt sem hann rekur að það flækir mjög umræðuna um tilflutning þjónustu aldraðra til sveitarfélaga sú yfirlýsing sem hann vitnar til frá formanni Sambands sveitarfélaga. Ég held að að sumu leyti sé nú um að ræða ákveðinn misskilning hjá sveitarstjórnarmönnum hvað varðar þennan tilflutning að því leyti að ríkið er ekki að gera sér að leik í fortíðinni, hvort sem er með grunnskólann eða þjónustu við fatlaða, að demba einhverjum kröfum á sveitarfélögin heldur er það þannig að þjónustan heldur áfram að þróast og kröfurnar halda áfram að þróast. Það er ekki hægt að festa niður kröfur til félagslegrar þjónustu og síst af öllu þegar hún er komin í nærumhverfið þar sem fólk gerir kannski líka ríkari kröfur þegar málin eru komin á hendur sveitarfélaga.

Samt finnst mér hæstv. ráðherra þurfa að svara því af hverju það er þannig að skattgreiðendur á Akureyri þurftu að borga með þessu. Var honum ekki í lófa lagið að gera breytingar á samningnum, sérstaklega í ljósi þeirrar þekkingar sem hann hefur á þessu málasviði og þeirrar reynslu sem hann hefur, til þess að gera sveitarfélaginu kleift að halda þjónustunni áfram með rammasamningi, sem vissulega hefur verið fyrirkomulagið síðustu ár? Ég held að það hefði haft mjög jákvæð áhrif að halda þessu verkefni áfram í höndum Akureyrar. Hæstv. ráðherra vitnar í Höfn í Hornafirði en það er auðvitað ekki að fullu leyti sambærilegt vegna stærðar sveitarfélaganna, þess vegna er þetta nú kallað Akureyrarmódelið. Akureyri er það stórt sveitarfélag að sveitarfélagið býður upp á fjölbreytta þjónustu og hefur getað boðið upp á hana í félagslegri þjónustu og það hefur verið mjög (Forseti hringir.) mikilvægt sem sýnidæmi.