144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

uppbygging hjúkrunarheimila.

312. mál
[20:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur haft áhuga á þeim málaflokki. Við gerðum þá breytingu á síðasta kjörtímabili þegar ég var félagsmálaráðherra að breyta lögum á þann veg að gera leiguleiðina svonefndu færa og þá sérstaklega með því að Íbúðalánasjóði var gefin heimild til þess að veita 100% lán til byggingar hjúkrunarheimila til endurgreiðslu á 40 árum. Þetta þótti nokkrum dálítið vel í lagt, en hugsunin var sú að um væri að ræða uppbyggingu sem ætti að nýtast um áratugi og væri eðlilegt að greiddist niður á lengri tíma, sérstaklega í ljósi þess að aðstæður voru einkar heppilegar í samfélaginu á þessum tíma; atvinnuleysi mikið, byggingarkostnaður lágur og mikil efnahagskreppa og þar af leiðandi gríðarlega mikilvægt að koma verklegum framkvæmdum af stað.

Þetta tókst ágætlega. Búið er að byggja samkvæmt þessari leið hjúkrunarheimili víða, eins og á Akureyri og verkefninu á Egilsstöðum er að ljúka. Verkefnið á Ísafirði er að fara af stað, ef ég man rétt, eða er farið af stað. Í Borgarnesi er byggt og tekið í notkun. Sama má segja um Mosfellsbæ, Garðabæ og verkefnið í Hafnarfirði er komið í áætlun og ég held að búið sé að ganga frá samningi við Seltjarnarnes. Allt eru þetta verkefni sem eru sem sagt að fara af stað með þessari leiguleið sem ég tel mjög skynsamlega til að standa að uppbyggingu þegar ríkissjóður er í ákveðinni fjárkreppu. Þetta húsnæði verður einhvers virði. Það nýtist um ókomna tíð og hefur fjölbreytt notagildi samkvæmt þeirri hönnun sem nú er unnið eftir við byggingu þessara rýma.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þeirrar andstöðu sem hæstv. fjármálaráðherra hefur látið koma fram í umræðum í þinginu við þessa leið: Hvert er viðhorf hans til frekari uppbyggingar hjúkrunarheimila?

Nú er áfram veitt fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til rekstrar þeirra hjúkrunarrýma sem þegar hafa verið byggð. Við gripum til þessa neyðarúrræðis en einungis að því marki sem við vorum ekki búin að taka fé úr sjóðnum til að standa undir endurgreiðslu þessara lána. Við ætluðum sjóðnum að verða endurgreiðsluaðili lánanna í sífellt ríkari mæli eftir því sem lánin yrðu tekin. Nú hins vegar eru peningarnir sem einu sinni voru notaðir til að byggja hjúkrunarheimili notaðir í rekstur. Hæstv. fjármálaráðherra segist ekki vilja taka lán og hann vill ekki heldur safna í sjóð.

Hvað vill hæstv. heilbrigðisráðherra gera í þessu efni? Hvernig sér hann fyrir sér að tryggð verði áframhaldandi uppbygging hjúkrunarrýma?