144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[13:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þann 18. september sl. fékk hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrirspurn frá mér varðandi virðisaukaskatt sem einstaklingar greiða, greint eftir tekjuhópum og virðisaukaskattsþrepum. Það eru liðnir 47 dagar, þar af 33 virkir. Samkvæmt þingsköpum hafa ráðherrar 15 virka daga til að skila inn skriflegu svari og ef þeir geta ekki gert það eiga þeir að senda forseta skýringar á töfunum og láta vita hvenær svarsins má vænta.

Þess vegna spyr ég forseta hvort hann hafi fengið slíkar útskýringar frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Þarna er um að ræða upplýsingar sem fleiri en ég eru að bíða eftir og skiptir miklu máli vegna afgreiðslu á stóru stefnumáli ríkisstjórnarinnar.