144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[13:34]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er auðvitað bagalegt ef það gerist að ekki er unnt að svara fyrirspurnum í tæka tíð samkvæmt ákvæðum þingskapa. Eins og hv. þingmaður vakti athygli á þá er það gjarnan þannig að þeir ráðherrar sem þetta á við skrifa bréf til forseta til að greina frá því að það takist ekki. Það er þá jafnan gert á grundvelli þess að ekki hafi unnist tími til þess að ljúka slíkri vinnu.

Eins og hv. þingmenn vita krefjast fyrirspurnir af þessu tagi oft og tíðum býsna umsvifamikillar athugunar eða vinnu og þess vegna er það ekki einsdæmi að svör við fyrirspurnum dragist þó að það sé óheppilegt.

Forseti vill í þessu sambandi vekja athygli á því að á þessu þingi hafa verið lagðar fram óvenjulega margar fyrirspurnir til skriflegs svars. Forseti hyggur að það kunni að hafa verið slegin öll met í þessum efnum það sem af er þessu þingi þótt enginn viti hvert framhaldið verður á þessum þingvetri. Vill forseti í því sambandi vekja athygli á því að fyrirspurnir sem lagðar hafa verið fram til skriflegs svars eru nú orðnar 168 miðað við stöðuna eins og hún var 23. október og hefur nokkuð bæst í síðan. Enn fremur og af þessum spurningum bíða 115 svars en skrifleg svör hafa borist við 53 fyrirspurnum.

Ef forseti fær upplýsingar um nýrri stöðu þessa máls er sjálfsagt að koma þeim á framfæri. Hann getur sér þess til að þetta kunni að valda því að lengur hefur dregist um svör við ýmsum skriflegum fyrirspurnum en æskilegt hefði verið.