144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[13:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta þingmanni sem kvartaði undan afgreiðslu úr fjármálaráðuneytinu. Ég á þar inni fyrirspurn líka síðan seinni partinn í september. Hún er hvorki mjög ítarleg né flókin. Það er ein spurning sem snýr að endurgreiðslu virðisaukaskatts af íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn. Ég óskaði að vísu eftir því að tekin væru tíu ár en ég get ekki ímyndað mér að það standi ráðuneytinu fyrir þrifum að svara þeirri spurningu.

Ég get vel skilið að það sé mikið álag og það er enginn að segja að svo sé ekki akkúrat á þessum árstíma varðandi fjárlögin en það er þó lágmarkskurteisi, eins og forseti rakti áðan, að þess sé þá farið á leit við forseta og þingið að beiðnin fái að liggja eitthvað lengur inni og gefnar ástæður fyrir því hvers vegna svo sé.

Ég vona að hæstv. forseti kalli eftir því að þessum spurningum verði svarað hið bráðasta.