144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega ekki hægt annað en að rifja upp það sem hér fór fram utan húss í gær og hvernig við því var brugðist af þeim sem fara fyrir núverandi ríkisstjórn. Hroki, dónaskapur, dólgsháttur og yfirlæti er það sem sagt er í dag á samfélagsmiðlum um framkomu ríkisstjórnarinnar. Fólki finnst ótrúlegt að fylgjast með yfirgangi og dónaskap næstum hvers einasta fulltrúa ríkisstjórnarinnar, er sagt. Þegar einhver gagnrýnir stefnuna er það ómaklegt, það eru loftárásir, það er samsæri eða einhverjar annarlega kenndir.

Hæstv. forsætisráðherra hafði meira að segja svo mörg orð um það að nú hlyti bara að vera mótmælt úti á Austurvelli vegna þess að fólk væri á móti því að ríkisstjórnarflokkarnir væru aðrir en þeir ættu að vera, þ.e. að mótmælendum fyndist að stjórnarandstaðan ætti að vera við völd og verið væri að mótmæla að svo væri ekki. Hvurs lags yfirlæti er þetta?

Heldur hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra að það sé ekki verið að mótmæla fjárlögunum, að hér sé ekki verið að mótmæla stöðunni í heilbrigðismálum, í menntamálum eða lekamálinu? Eða lögregluskýrslunni sem er að hætti kaldastríðsmanna? Það nýjasta í því máli er, segir sá sem hana skrifaði, að hún hafi aldrei verið ætluð til húslestrar. Hvurs lags eiginlega er þetta?

Svo halda menn að einn kúkabrandari, sem sagður var hér í gær, frelsi alla stjórnmálamenn undan ábyrgð á orðum sínum og gjörðum, er sagt. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.

Virðulegi forseti. Því miður sitjum við uppi með forsætisráðherra sem sýnir okkur ítrekað, bæði þingmönnum og þjóð sinni, lítilsvirðingu og gerir lítið úr almenningi og sýnir vanvirðingu með því sem hann lætur út úr sér annað slagið, hvort sem er í fjölmiðlum (Forseti hringir.) eða á þingi.