144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf að ræða mál sem við getum ekki rætt. Á fundi hv. allsherjar- og menntamálanefndar í morgun fengum við þingmenn sem þar sátum leynilegar reglur um valdbeitingarheimildir lögreglunnar, en yfir þeim ríkir mikil leynd eins og þekkt er orðið. Kjörnir þingmenn þurftu að kvitta fyrir móttöku og skil. Við máttum ekki halda eintaki, vorum beðnir um trúnað sem ég vænti þess að allir þingmenn sem voru viðstaddir haldi.

Ýmsir hafa kallað eftir því að þessar reglur verði gerðar opinberar, jafnvel lögreglumenn sjálfir, þar á meðal einn sérlega háttvirtur fyrrverandi lögreglustjóri. Eftir að hafa séð þessar reglur sjálfur og rætt þær aðeins í þessari nefnd í morgun er ég sannfærðari en nokkru sinni áður um það að þær ættu að vera opinberar. Ég held að það væri öllum til heilla, ekki síst lögreglumönnum sjálfum.

Við fórum yfir þessar reglur í þessari nefnd vegna þess hergagnamáls sem hefur verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu. Reglurnar svara mörgum spurningum sem ég get ekki rætt hér og ég get ekki rætt í nefnd vegna þess að ég hef ekki eintak af reglunum. Þær vekja líka margar spurningar sem ég get ekki rætt hér og við getum ekki rætt í nefnd vegna þess að við höfum ekki eintak af reglunum. Maður tekur eftir því þegar maður les þessar reglur að í fjölmiðlum er greinilegt að menn hafa talað þannig að þeir vitni sem minnst í reglurnar og gefi sem minnst upp um það hvað í þeim stendur vegna þess að þeir eru að reyna að halda þennan trúnað. Þetta þýðir að svörin sem við fáum héðan og þaðan eru ýmist óskýr eða beinlínis villandi. Hvorugt er í lagi þegar við erum að reyna að taka lýðræðislegar ákvarðanir um það hvernig við ætlum að haga löggæslu í þessu landi.

Eftir að hafa séð þessar reglur fullyrði ég að þegar allt kemur til alls veki leyndin yfir þeim meiri ótta en þann sem borgarar mættu búast við ef leyndinni yrði aflétt.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.