144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Eyrún Eyþórsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Danski blaðamaðurinn Ulrik Høy varpaði því einu sinni fram að Íslendingar væru alltaf að safna glansmyndum af sjálfum sér og þjóðinni. Með öðrum orðum værum við alltaf að reyna að halda á lofti goðsagnakenndum hugmyndum um hvað það væri að vera Íslendingur, við værum alltaf best og mest, hvort sem um væri að ræða meint eðli okkar eða það að við ættum tærasta vatnið og ferskasta loftið.

En hvað er svona best í heimi við Ísland í dag? Er það heilbrigðiskerfið sem er á mörkum þess að hrynja? Er það fjárhagur þeirra sem þurfa að leita sér lækninga við krabbameini og eru nánast gjaldþrota? Er það veruleiki ungu kynslóðarinnar sem sér ekki fram á að geta fjárfest í eigin húsnæði? Er það daglegt líf fólks með geðræn vandamál sem fær ekki viðeigandi þjónustu? Er það hagur barna á Íslandi sem býr við fátækt? Er það tækifæri fólks sem er útilokað frá menntakerfinu vegna þess að það nær ekki að klára stúdentspróf fyrir 25 ára aldur? Er það aukin misskipting samfélagsins? Er það tilvera öryrkja sem hafa ekki efni á lágmarksframfærslu? Vitið þið hvað? Glimmerinn er löngu fallinn af glansmyndum núverandi ríkisstjórnar og það er kominn tími til að við spyrjum okkur sem samfélag á hvaða vegferð við séum eiginlega.

Munum að það var ekki neitt úrvals íslenskt eðli sem skapaði efnahagslegt góðæri heldur ímyndaðir yfirburðir Íslendinga. Þessi hugmyndafræði um íslenskan frábærleika var svo fast mótuð í minningaframleiðslu þjóðarinnar að hún varð henni að falli. Látum ekki glansmyndir ríkisstjórnarinnar um að hér sé allt í góðum málum steypa okkur til sömu glötunar.

Þær þúsundir manna og kvenna sem mótmæltu ríkisstjórninni á Austurvelli í gær kalla eftir breyttu samfélagi þar sem menntun og heilbrigðisþjónusta er tryggð, þar sem ungt fólk getur stofnað fjölskyldu og aldraðir þurfa ekki að líða skort, þar sem sameiginlegir sjóðir og auðlindir þjóðarinnar eru nýttir til samfélagsins í heild sinni en ekki fyrir nokkra útvalda og þar sem jöfnuður og jafnrétti ríkir.