144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Herra forseti. Mér var nokkuð brugðið að heyra í ágætum þingmanni í upphafi þessarar umræðu. Hafa sumir einkaleyfi á því að vera stóryrtir? Mér var kennt það í bernsku að það væri ekkert betra þó að einhverjir aðrir gerðu það, að maður mætti ekki falla í sömu gryfju þó að maður væri að mótmæla. Mér var virkilega brugðið.

Ég ætlaði að koma hingað og halda ræðu og vera nokkuð jákvæð en það virðist vera mjög erfitt að ætla sér að koma með því hugarfari inn í þennan sal.

Ég vil þó segja að fjárlög eru ekki til lykta leidd. Ég veit ekki betur en að þau séu til umræðu hér og næsta umræða verður eftir rúma viku. Það sem mig langaði að segja jákvætt um fjárlögin er að ríkisstjórnin hefur til dæmis stóraukið fjárveitingar til vísinda- og rannsóknastarfa. Þar er sókn sem mun leiða til sigurs fyrir ungt fólk vegna þess að aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, sem var til umræðu hér í gær og er undir forustu forsætisráðherra og samþykkt var síðasta vor, er stórmerkt plagg.

Mér fannst mjög ánægjulegt hér í gær að frummælandi sem og ráðherra voru nokkuð sammála og andi samstöðu sveif yfir vötnum, um að það mætti auka hið pólitíska afl og aðkomu varðandi vísindarannsóknir og tæknimál.

En síðastliðinn októbermánuður hefur verið nefndur mánuður heilans. Kynntar voru rannsóknir, fundir haldnir, nóbelsverðlaun veitt, samtök stofnuð og bækur gefnar út um starfsemi heilans og sýn frá mörgum hliðum. Heilasjúkdómar og heilahrörnun voru til umræðu en heilahrörnun vex náttúrlega mjög með hækkandi aldri.

Nú er mikið talað um klasasamstarf sem leiðir gjarnan saman ólík fyrirtæki og fræðigreinar fram til sóknar. Klasarnir hér á landi eru þekktir á sviði sjávarútvegs og jarðvarma og hafa reynst heilladrjúgir landi og þjóð. Klasasamstarf er líka til á heilbrigðissviðinu eins og KÍM Medical Park. Undirrituð (Forseti hringir.) vonast til að öflugt klasasamstarf geti einnig myndast utan um (Forseti hringir.) taugavísindi hér á landi er byggi á öflugu vísindastarfi margra aðila og sérstöðu okkar hvað varðar ættartengsl og genarannsóknir.