144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir það að taka þetta mál hér upp. Ég tek undir margar af þeim áhyggjum sem hv. þingmaður kom inn á í máli sínu og við höfum orðið vör við, m.a. í þeirri kjördæmaviku sem hv. þingmaður vitnaði til á þingum landshlutasamtaka. Við þingmenn kjördæmisins höfum líka fundað með skólameisturum í kjördæminu. Þetta hefur komið upp í fjárlaganefnd þar sem sveitarfélög hafa komið til fjárlaganefndar og flest hver lýst áhyggjum af stöðu fjölbrautaskólanna.

Fyrir tveimur vikum var þetta mál tekið upp í þinginu við hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í menntamálanefnd. Ég vil taka undir ákveðna þætti sem komu fram í máli hennar um að það sé sjálfsagt að skoða fullorðinsfræðsluna og vera tilbúin að velta fyrir okkur breytingum þar á. Jafnframt er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af stöðu minni framhaldsskóla.

Af því hv. þingmaður spyr hvernig sá sem hér stendur muni beita sér í þessu máli þá á ég sæti í fjárlaganefnd þingsins. Málið er þar til umfjöllunar. Fjárlaganefnd er búin að vera að fara yfir fjárlagafrumvarpið og hefur tekið á móti gestum eins og ég sagði. Ég á von á því að þetta mál verði eitt þeirra sem verða skoðuð líkt og fleiri mál áður en fjárlög verða afgreidd fyrir jól. Ég held að það sé ekki tímabært meðan málið er í vinnslu og í meðförum nefndarinnar að tjá sig nákvæmlega hvernig það verði gert.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að margir framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa unnið mikið og gott starf þegar kemur t.d. að dreifnámi og fleiru sem hv. þingmaður kom inn á, sem er ótrúlega flott framtak og tryggir það að í mörgum af dreifðustu byggðum landsins geta nemendur stundað framhaldsnám (Forseti hringir.) sem ekki var hægt áður.