144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Sú kenning heyrist frá framsóknarmönnunum sérstaklega að það sé engin ástæða til að taka mark á skoðanakönnunum. Þeir verða að hafa það eins og þeir vilja en það er fleira kannað en fylgi stjórnmálaflokka. Traust til stofnana er kannað og þá kemur í ljós að fólk ber afskaplega lítið traust til okkar sem störfum í sölum Alþingis og eigum að ákveða leikreglur sem gilda í þjóðfélaginu. Í könnun sem birt var fyrir skemmstu kom í ljós að 54,7% báru lítið traust til Alþingis. Einungis 12,8% báru mikið traust til Alþingis.

Ég viðurkenni fúslega, forseti, að ég hef áhyggjur af þessu og það nægir mér ekki að þetta lagist einhvern tímann. Í gær söfnuðust saman hér fyrir utan hátt í 5 þús. manns. Þetta fólk er óánægt með störf okkar, fólk mótmælir niðurskurði í velferðarkerfinu, heilbrigðismálum og menntamálum, lækkun skatta á þá sem meira mega sín og fyrirhugaða hækkun skatta á nauðsynjar. Það mótmælir líka því sem virðist vera og er máttleysi okkar til að takast á við stjórnkerfið eða stjórnsýsluna, lekamálið, byssukaupin og hina skammarlegu samantekt um mótmælin 2008–2011.

Í morgun var fundur um þessa samantekt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Fundurinn var uppbyggilegur, lögreglustjórinn svaraði spurningum okkar skýrt og greinilega, án nokkurra undanbragða. Nefndin hefur ekki lokið umfjöllun sinni en af fundinum í morgun má ráða að lögreglustjóraembættið taki alvarlega athugasemdir við það hvernig staðið var að gerð skýrslunnar frá upphafi til enda.

Á sama hátt þurfum við, virðulegur forseti, að fá botn í lekamálið og byssukaupin.