144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[14:19]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 372, frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum. Segja má að bæði þetta þingmál sem og þingsályktunartillagan sem rædd verður hér einnig í dag og ég mæli fyrir séu lögð fram í því skyni að reyna að ná fram heildstæðri framtíðarsýn og sátt um hvernig við viljum standa að þróun og uppbyggingu þeirra mikilvægu innviða sem felast í flutningskerfi raforku.

Við gerð frumvarpsins var haft ítarlegt samráð við Orkustofnun, Landsnet og Samband íslenskra sveitarfélaga. Að auki voru drög að frumvarpinu birt á heimasíðu ráðuneytisins þann 27. júní og óskað eftir athugasemdum. Um 20 umsagnir bárust og hefur verið horft til þeirra við endanlegan frágang frumvarpsins eins og það er hér lagt fram. Þær umsagnir eru aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins sem og samanburðarskjal sem sýnir þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpsdrögunum í kjölfar innsendra umsagna og ábendinga. Er þessi aðdragandi og undirbúningur í samræmi við það markmið frumvarpsins að reyna að ná sátt um framtíðarsýn fyrir þennan mikilvæga málaflokk.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á III. kafla raforkulaga sem lúta að uppbyggingu flutningskerfis raforku. Með frumvarpinu er lagt til að við III. kafla laganna verði bætt nýjum greinum sem fjalla sérstaklega um svokallaða kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins Landsnets. Í núgildandi raforkulögum er ekki kveðið sérstaklega á um kerfisáætlun að öðru leyti en því að í 3. mgr. 9. gr. kemur fram að flutningsfyrirtæki skuli sjá til þess að „fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins“.

Markmið frumvarpsins er að kerfisáætlun fái traustari grundvöll og að ítarlega sé kveðið á um hana í raforkulögum, þ.e. um undirbúning hennar, skyldu til víðtæks samráðs, efnislegt innihald, framfylgni, eftirlit og stöðu í stjórnkerfinu. Að sama skapi er markmið frumvarpsins að einfalda fyrirkomulag leyfisveitinga þegar kemur að framkvæmdum við flutningskerfi raforku og gera ferla skilvirkari og einfaldari hvað það varðar í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar þar um.

Frumvarp þetta er í samræmi við niðurstöðu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð en sú nefnd skilaði skýrslu sinni í febrúar 2013 og var hún lögð fram á síðasta löggjafarþingi til almennrar umræðu. Í skýrslunni voru settar fram tillögur er varða breytingar á fyrirkomulagi við undirbúning framkvæmda í flutningskerfinu og lagði nefndin til að vinnuferli í kringum kerfisáætlun yrði breytt og að innleidd yrðu ákvæði úr þriðju raforkutilskipun ESB nr. 72/2009 hvað það varðar. Er það gert með frumvarpi þessu.

Taka ber hins vegar fram að umrædd tilskipun hefur ekki enn verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og sem slík er tilskipunin ekki grundvallarástæða þessa frumvarps. Engu að síður þótti rétt, eins og bent var á í áðurnefndri skýrslu, að hafa hliðsjón af ákvæðum 22. gr. tilskipunarinnar að því er kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins varðar.

Með frumvarpinu er nánar tiltekið lagt til að kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins verði tvískipt. Annars vegar er um að ræða langtímaáætlun sem sýni hvaða þætti í meginflutningskerfinu er fyrirhugað að byggja upp á næstu tíu árum og hins vegar framkvæmdaáætlun sem sýni framkvæmdir sem ráðast þarf í á næstu þremur árum ásamt tímaáætlun og valkostagreiningu. Samkvæmt frumvarpinu skal flutningsfyrirtækið Landsnet hafa ítarlegt samráð við alla hagsmunaaðila við undirbúning kerfisáætlunar og eru sveitarfélög þar sérstaklega tilgreind. Samkvæmt frumvarpinu er það síðan hlutverk Orkustofnunar að samþykkja og hafa eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar og ber Orkustofnun við yfirferð kerfisáætlunar að hafa samráð við hagsmunaaðila.

Að sama skapi er með vísan til einföldunar og skilvirkni með frumvarpinu lagt til að eftirlit Orkustofnunar með framkvæmdum í flutningskerfinu verði fært framar í undirbúningsferli framkvæmda og fari fram við samþykkt Orkustofnunar á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar en ekki á lokastigum við undirbúning framkvæmda eins og nú er.

Allt eru þetta breytingar sem kallað hefur verið eftir af aðilum sem starfa innan þess geira og eru þær nauðsynlegur liður í uppbyggingu á flutningskerfi raforku, en eins og komið hefur fram í almennri umræðu er víða brýn þörf á úrbótum í flutningskerfinu til að tryggja fullnægjandi afhendingaröryggi raforku. Þar má nefna Norðausturland og Vestfirði, á báðum þeim svæðum og raunar fleirum er orkuframboð ekki nægt og kerfið veikt. Sú staða hamlar því bæði frekari uppbyggingu og veldur ákveðnu óhagræði hjá einhverjum fyrirtækjum sem þegar starfa á svæðinu.

Að auki má í þessu sambandi nefna þörfina á að styrkja landsnetið í það heila og tengja svæðin betur saman. Síðasta vetur sáum við bersýnilega þörfina á því þegar vatnsstaða lóna var óhagstæð og erfitt að flytja orku á milli svæða. Að sama skapi er brýnt að reyna að ná fram meiri sátt við undirbúning framkvæmda, m.a. með því að gefa hagsmunaaðilum ríkara tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum og ábendingum á framfæri á fyrstu stigum eins og lagt er til með frumvarpinu.

Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á að nokkur umræða hefur átt sér stað um samspil kerfisáætlunar við skipulagsvald sveitarfélaga. Ljóst er að áætlanir um framkvæmdir í flutningskerfi raforku hafa áhrif á skipulagsmál sveitarfélaga og öfugt og því er mikilvægt að kveða á um samspil þeirra þátta. Er það gert með frumvarpi þessu.

Við undirbúning frumvarpsins var haft gott samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað þessa þætti varðar. Með frumvarpinu er kveðið á um ríka samráðsskyldu við sveitarfélög við undirbúning kerfisáætlunar. Er þannig tryggt að unnt sé að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri á upphafsstigum varðandi fyrirhugaðar nauðsynlegar framkvæmdir í flutningskerfinu.

Til að tryggja stöðu kerfisáætlunar er að sama skapi í frumvarpinu lagt til að sveitarstjórnum beri að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar og að sveitarstjórnum beri innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun. Í frumvarpinu er vísað til þess að nánari útfærsla mannvirkja vegna uppbyggingar flutningskerfisins, svo sem hvort um er að ræða raflínu í jörð eða loftlínu, ráðist af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Er þar verið að vísa til þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína sem, eins og ég sagði í upphafi máls míns, lögð er fram á Alþingi samhliða frumvarpi þessu og byggir hún að sama skapi á framangreindri skýrslu um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð. Þar er að finna viðmið og meginreglur sem hafa ber að leiðarljósi við gerð kerfisáætlunar og sem taka meðal annars á þeim álitamálum sem verið hafa uppi um jarðstrengi og loftlínur. Er í þeirri tillögu til þingsályktunar að finna tilvísanir yfir í frumvarp þetta og öfugt.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé um mikið framfaraspor að ræða sem við í þinginu ættum að geta náð saman um og legg svo til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.