144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[14:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og er ánægð með að heyra að hann áttar sig á tilganginum með þessu frumvarpi en hann er einmitt sá að reyna að ná utan um þessi flóknu mál með það að markmiði að um þau geti ríkt meiri sátt. Hann líkti þessu við rammaáætlun, ég held að það sé góð samlíking. Þetta er markmiðið á bak við þetta verkefni. Að samræma þessi sjónarmið — þörfina á að bæta flutningskerfi raforku og með þessu máli og þingsályktunartillögu, sem við ræðum hér á eftir — við önnur allt eins mikilvæg sjónarmið, hvort sem þau eru sjónarmið umhverfisverndar eða ferðaþjónustu eða önnur sjónarmið. Það er líka alveg rétt að þetta leysir ekki öll vandamál og álitamál.

Hv. þingmaður var að velta því fyrir sér hvernig við skerum úr um ágreiningsmál. Ákvörðun Orkustofnunar um að samþykkja kerfisáætlun er kæranleg stjórnvaldsákvörðun til ráðuneytisins og þaðan eftir atvikum kæranleg til dómstóla. Þannig að gert er ráð fyrir þeim möguleika.

Varðandi samráð við sveitarfélögin bendi ég fólki á að skoða samanburðarskjalið, sem er á vef ráðuneytisins, og athugasemdir sem komu fram í samráðsferlinu. Þar er tekið tillit til þeirra athugasemda og áhyggna sem sveitarfélögin höfðu og orðalagið í umræddri grein, 9-c, er beinlínis samið í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Þannig að við lögðum okkur fram um að ná eins góðu samstarfi og hægt var við sveitarfélögin um þetta mál enda kemur þetta inn á (Forseti hringir.) það sem sveitarfélögum er mjög heilagt, það er skipulagsvaldið.