144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[14:58]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og vil gera mitt til þess að reyna að svara þeim.

Fyrst varðandi spurningu um flutningsfyrirtækið. Ástæða þess að í frumvarpinu er talað um flutningsfyrirtækið er ákvæði í raforkulögum, 8. gr. III. kafla, með leyfi forseta:

„Eitt fyrirtæki skal annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum þessa kafla.“

Samkvæmt lögum er þetta eitt fyrirtæki og þess vegna er það tiltekið.

Varðandi kerfisáætlun og þriggja fasa rafmagn vil ég benda hv. þingmanni á að það á ekki við um sveitarfélög, það eru einstaka sveitabæir sem því miður enn þá búa ekki við þau gæði, en við erum óþreytandi við að reyna að finna leiðir til þess að bæta úr því. Þá er tekið tillit til þess í frumvarpinu, en nú gleymdi ég að taka frumvarpið með mér en skal koma og benda á það orðalag í síðara andsvari mínu.

Um spurninguna um sveitarfélögin vil ég fyrst nefna að þetta orðalag, „sveitarfélögunum ber“, er nákvæmlega sama orðalag og er í t.d. rammaáætlun, í vegalögum, þar sem fjallað er um sambærileg atriði, þannig að þetta er ekki frábrugðið því.

Vegna samstarfs við sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga vil ég vísa til fréttatilkynningar sem sambandið gaf út 18. ágúst sl., en þar er sagt frá því að sveitarfélögin hafi verið að senda umsögn um frumvarpið og segir þar, með leyfi forseta:

„Lýsir sambandið ánægju með ákvæði um aukið samráð við gerð kerfisáætlunar við sveitarfélögin og hagsmunaaðila.“

Fyrr segir:

„Í umsögninni kemur fram að samráð var haft um efni frumvarpsins við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og hefur verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra við gerð frumvarpsins.“

Það var eitt ákvæði, 9. gr. c, sem þeir bentu á að þyrfti að (Forseti hringir.) skoða nánar. Það var gert og því breytt að loknu því samráðsferli.