144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:06]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þskj. 392, tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Eins og ég gat um áðan eru þessi tvö mál, þ.e. frumvarp um breytingu á raforkulögum sem við vorum að enda við að ræða og þetta mál, nátengd og styðjast hvort við annað.

Forsaga þessa máls er sú að í febrúar 2012 var á Alþingi samþykkt þingsályktunartillaga þar sem þáverandi iðnaðarráðherra var falið að skipa nefnd til að móta stefnu um lagningu raflína í jörð. Í greinargerð með þingsályktuninni er tilgreint að mikilvægt sé að fyrir liggi stefnumörkun um með hvaða hætti og á hvaða forsendum skuli stefnt að lagningu raflína í jörð og til hvaða þátta skuli sérstaklega taka tillit í þeim efnum. Í samræmi við þingsályktunina skipaði þáverandi iðnaðarráðherra nefnd um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð og skilaði nefndin lokaskýrslu til ráðherra í febrúar 2013.

Eftir að hafa kynnt mér efni skýrslunnar varð það niðurstaða mín að rétt væri að upplýsa Alþingi um efni hennar og lagði ég því skýrsluna fram til almennrar umræðu á síðasta löggjafarþingi. Skýrslan var til umfjöllunar í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd.

Eftir því hefur verið kallað um nokkurt skeið að stjórnvöld móti skýra stefnu varðandi lagningu raflína og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku. Um er að ræða eina af grundvallarstoðum í orkumálum Íslands og því æskilegt að um framtíð þessara mála ríki almenn samstaða. Því miður höfum við allt of oft séð þessi mál fara í gamalkunnar skotgrafir, t.d. alfarið með eða á móti raflínum í jörð. Ég tel tímabært að við lyftum umræðunni upp úr skotgröfunum og komum okkur saman um skynsamlega og ábyrga stefnu til lengri tíma.

Ein af meginniðurstöðum í skýrslu nefndarinnar var að setja skyldi fram almenn viðmið og grundvallarreglur sem hafa bæri til hliðsjónar við lagningu raflína. Það er gert með þingskjali þessu en við undirbúning þingsályktunartillögunnar hefur verið fylgt þeim sjónarmiðum sem koma fram í framangreindri skýrslu sem og nefndaráliti atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar frá síðasta þingi.

Samkvæmt raforkulögum ber flutningsfyrirtækinu Landsneti og dreifiveitum að horfa til hagkvæmni við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku. Jarðstrengir, sérstaklega á hærri spennu, eru enn sem komið er almennt nokkuð dýrari en loftlínur auk þess sem tæknilegar áskoranir geta í sumum tilvikum verið meiri við lagningu þeirra og viðgerðartími lengri. Þessum fyrirtækjum getur því verið nokkur vandi á höndum þegar þess er krafist í auknum mæli að raflínur séu lagðar í jörð, m.a. með vísan til umhverfissjónarmiða. Af þeim sökum hefur verið kallað eftir því að mörkuð verði stefna stjórnvalda um til hvaða þátta skuli sérstaklega taka tillit varðandi viðmið um val á milli jarðstrengja og loftlína.

Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að bregðast við framangreindu og leggja fram stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku verði stefnan sú sem fram kemur í þingsályktunartillögunni höfð að leiðarljósi að því er varðar þau álitamál um hvenær leggja skuli raflínur í jörð og hvenær reisa sem loftlínur. Í því skyni eru í skjalinu lögð til ákveðin skýr viðmið og meginreglur sem kunna meðal annars að réttlæta að ekki sé eingöngu horft á fjárhagslega hagkvæmasta kostinn við val á útfærslu framkvæmda í flutningskerfinu. Að auki er í þingsályktunartillögunni kveðið á um nokkur önnur atriði til stuðnings framangreindu og til samræmis við það sem fram kemur í skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð og nefndaráliti atvinnuveganefndar vegna þeirrar skýrslu.

Með þessari þingsályktunartillögu er því verið að gefa bæði Landsneti og dreifiveitum raforku færi á að horfa til annarra atriða en fjárhagslega hagkvæmasta valkosts við útfærslur á framkvæmdum í flutningskerfinu. Á sama tíma er markmiðið að byggja betur undir það með hvaða hætti sé staðið að undirbúningi framkvæmda í flutningskerfinu þannig að tryggt sé að um opið og gegnsætt ferli sé að ræða á grundvelli valkostagreiningar þar sem hagsmunaaðilar geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri mun fyrr í ferlinu en nú er.

Ef við víkjum nánar að efnisatriðum þingsályktunartillögunnar eru viðmið og meginreglur sem kveðið er á um í tillögunni í stuttu máli þau að við lægri spennu skuli að meginreglu notast við jarðstrengi nema í undantekningartilvikum en í meginflutningskerfi raforku skuli meginreglan vera sú að notast sé við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Með tilliti til umhverfis- og öryggissjónarmiða skal meta í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstrengi á viðkomandi línuleið eða afmörkuðum köflum hennar á grundvelli eftirfarandi viðmiða sem réttlæta þá að dýrari kostur sé valinn:

1. Ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis.

2. Ef línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags, samanber 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

3. Ef línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi.

4. Ef línuleið er innan þjóðgarðs.

5. Ef línuleið er innan friðlands sem verndað er af öðrum sökum en sérstaks landslags, samanber 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Í ofangreindum tilvikum skal meta hve langan jarðstreng er tæknilega mögulegt að vera með á viðkomandi stað í meginflutningskerfinu, kostnað og hvaða áhrif útfærslan hefur á afhendingaröryggi og gæði raforku. Ef kostnaður við að leggja jarðstreng í ofangreindum tilvikum er ekki meiri en 1,5 sinnum kostnaður við loftlínu á viðkomandi kafla skal miða við að leggja jarðstreng, nema ekki sé talið tæknilega mögulegt að leggja jarðstreng eða ef loftlína er talin betri kostur í umhverfismati á grundvelli umhverfissjónarmiða, t.d. þegar farið er í gegnum óraskað hraun, mýrar, tjarnir og fleiri slík viðkvæm svæði. Við samanburð á kostnaði skal miða við núvirtan stofnkostnað og rekstrarkostnað yfir líftíma mannvirkisins. Reglan um hámarkskostnaðarmun gildir þó ekki þegar um er að ræða skilgreint þéttbýli, friðland sem verndað er sökum sérstaks landslags eða að teknu tilliti til flugöryggis. Í öllum tilvikum skal taka mið af afhendingaröryggi raforku og kostnaði við að tryggja það.

Nánar vísast til umfjöllunar og útskýringa í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Þann 19. ágúst 2014 voru drög að þingsályktunartillögunni birt á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til kynningar og umsagnar. Um 15 umsagnir bárust ráðuneytinu og voru gerðar nokkrar breytingar á drögunum með vísan til ábendinga sem bárust í umsagnarferlinu. Voru allar umsagnir birtar á heimasíðu ráðuneytisins auk samanburðarskjals sem sýnir þær breytingar sem gerðar voru á drögunum í kjölfar innsendra ábendinga og athugasemda.

Eins og rætt var áður vil ég geta þess að samhliða þingsályktunartillögu þessari hefur verið lagt fram á Alþingi og mælt fyrir í dag frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, sem kveður á um hvernig standa skuli að undirbúningi kerfisáætlunar Landsnets, eftirliti með framkvæmd hennar og jafnframt hvaða stöðu hún hefur. Kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins er mikilvægt grundvallarskjal varðandi áætlanir um uppbyggingu flutningskerfisins og brýnt að tryggja opið aðgengi að mótun þess og að það hafi ákveðna stöðu í stjórnkerfinu.

Ein af megintillögum í skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð var einmitt að breyta vinnuferlinu í kringum kerfisáætlun og er það gert með umræddu frumvarpi. Frumvarpið og þingsályktunartillaga sú sem ég mæli nú fyrir styðjast við hvort annað varðandi þau efnisatriði sem fram koma í þeim.

Að lokum ítreka ég þá skoðun mína að við séum hér að stíga mikilvæg og nauðsynleg skref til framfara í þá veru að móta skýra stefnu varðandi lagningu raflína og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku og gera á sama tíma skýrar kröfur til undirbúnings framkvæmda í flutningskerfi raforku með það að leiðarljósi að tryggja aðkomu hagsmunaaðila frá upphafsstigum og leitast þannig við að ná meiri sátt um þennan málaflokk en verið hefur.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þingsályktunartillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og líkt og rætt var fyrr í umræðum um frumvarpið finnst mér ástæða til þess að hv. nefnd skoði hvort senda skuli þessa tillögu til annarrar nefndar, svo sem umhverfis- og skipulagsnefndar.