144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að bjóða hæstv. ráðherra upp á að svara spurningunni í andsvari sem ég bar hér upp í umræðu um fyrra málið og lýtur að áformum Landsnets, svo við höldum okkur við þann þátt málsins, að kynna nú drög að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum af háspennulínu vestur í miðhálendi Íslands, og hvort hæstv. ráðherra er ekki tilbúinn til þess að leggjast á sveif með þeim sem telja að hyggilegt væri að fyrirtækin biðu með þessi áform þangað til Alþingi hefur lokið umfjöllun um þennan nýja ramma ákvarðanatöku og stjórnsýslu á þessu sviði. Þá vísa ég til þess að endurskoðun á svæðisskipulagi miðhálendisins stendur yfir og nýtt landsskipulag á að leysa það af hólmi innan skamms.

Ég segi fyrir mitt leyti að mér væri strax rórra og ég held að það yrði meiri vinnufriður í kringum þetta ef hægt væri með lagni að koma því til leiðar að Landsnet og Vegagerðin sköpuðu skjól fyrir yfirvegaða vinnu í þessum efnum með því að kippa áformunum til baka í bili og doka við.