144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:16]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi því og treysti að það séu einmitt yfirveguð vinnubrögð sem þarna búa að baki og treysti því að báðar þær stofnanir sem hv. þingmaður vísar til, hvort sem það er Landsnet eða Vegagerðin, taki að sjálfsögðu mið af þeirri vinnu sem við erum að leggja í á Alþingi.

Sú matsáætlun sem kynnt voru drög að á dögunum er samkvæmt kerfisáætlun 2014–2023 og er unnin árlega. Hún hefur farið í gegnum umhverfismat áætlana og verið samþykkt í stjórn. Þarna eru ýmsar leiðir til.

Ef maður fer aðeins yfir ferlið eru síðan drög send til kynningar og tillaga að matsáætlun að því búnu send Skipulagsstofnun og það hefur ekkert farið, eftir því sem ég best veit, til Skipulagsstofnunar. Ég er ekki viss um að réttast sé að við beinum tilmælum til einstakra stofnana, ég vil frekar hvetja stofnanirnar til þess að taka mið af þeirri umræðu og vinnu sem fer fram á þinginu. Þau viðmið til dæmis sem lögð eru í þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum núna gætu haft þó nokkur áhrif á hvernig áform yrðu í framhaldinu um þessa leið eða aðrar sem yrðu valdar, þannig að ég trúi því að þessi fyrirtæki og stofnanir muni taka mið af því án þess að til þeirra sé beint sérstökum tilmælum.