144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég ekki eins ánægður með svör hæstv. ráðherra, þetta finnst mér ekki alveg fullnægjandi. Ég held að það sé augljóst mál að miklu hreinlegra væri að alveg nýtt matsferli legði af stað eftir að framtíðarlagaumhverfið er komið á sinn stað og eftir að nýtt skipulag fyrir miðhálendið, nýtt landsskipulag, er orðið staðfest.

Ég bendi til dæmis á að aðkoma almennings að þessu máli á frumstigum þess er þannig núna að menn hafa tvær vikur eða svo til að gera athugasemdir við þessi drög að matsáætlun, það er núna í nóvember. Og þar með er sá möguleiki fram hjá mönnum farinn að gera athugasemdir við drög að matsáætlun og þær festar í sessi eftir það. Ég held að hitt sé augljóslega vænlegra og ég held að við séum ekki að tapa neinum óskaplegum tíma þó að það væri gert. Jú, auðvitað hlusta fyrirtækin á þetta og við sjáum hvort þau bregðast með einhverjum hætti við því, en ég held að það þurfi aðeins meiri þrýsting á þau eða ég óttast það, nema hið óvænta gerist að við fréttum af því í dag eða á morgun að þau hafi ákveðið að bíða með málið, sem væri sannarlega gleðilegt af því að þar eru gríðarlega stór mál á ferð.

Ég er sammála því að sá rammi sem er lagður um þetta í þingsályktunartillögunni kann að hafa hér heilmikil áhrif. En við eigum líka eftir að ræða margt í honum, eins og ég mun koma inn á í ræðu minni, herra forseti, sem getur einmitt skipt verulegu máli, t.d. varðandi það hvort við einskorðum viðmiðin við að línur fari um þjóðgarða eða friðlýst svæði eða í næsta nágrenni við þau, og þar held ég að þurfi að gera breytingar, t.d. á þessari tillögu. Það eru hlutir af því tagi sem kunna að taka breytingum í meðferð þingsins sem væri eðlilegra (Forseti hringir.) að lægju fyrir áður en menn leggja af stað í matsferlið.