144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:21]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan: Ég er þess sannfærð að flutningsfyrirtækið, og eftir atvikum þær stofnanir sem þarna er um að ræða, taka tillit til þeirra sjónarmiða og þeirrar vinnu sem við erum að hefja nú á Alþingi varðandi þessi mál. Ég treysti því. Hv. þingmaður sagði að það gæti verið að við fengjum af því fréttir einhverja næstu daga að ákvarðanir yrðu teknar. Þá er það þannig, án þess að ég hafi nokkra vitneskju um slíkt, en ég tel að það sé þeirra að meta það.

Það er rétt að við eigum eftir að ræða þessa tillögu og hún á eftir að hljóta umfjöllun í atvinnuveganefnd þingsins og getur tekið breytingum. Við skulum sjá hvað úr þeirri vinnu kemur.

Varðandi aðkomu almennings þá á hún, eins og ég sagði, ef þessi matsáætlun heldur farvegi sínum, eftir að fara til Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun sendir hana aftur út til umsagnar þannig að aðkoma almennings, hvernig sem málinu vindur fram, er tryggð á síðari stigum málsins. Ég ítreka að ég trúi því að þessar stofnanir og fyrirtæki ríkisins hafi í huga þá vinnu sem er í gangi á Alþingi.