144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna báðum þeim málum sem ráðherra hefur mælt fyrir. Þau eru mjög mikilvæg, ekki síst í ljósi aðstæðna.

Hv. atvinnuveganefnd hafði til umfjöllunar skýrslu um mótun stefnu við lagningu raflína í jörð, sem lögð var fram á Alþingi í október 2013. Nefndin fjallaði um hana og það var nokkuð góð vinna sem fór fram. Nefndin segir meðal annars í nefndaráliti sínu, með leyfi forseta:

„Þeir kostir sem nefndin telur að horfa skuli til sem viðmið um hvenær jarðstrengur skuli valinn umfram loftlínu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi að jarðstrengir skuli metnir jafnir loftlínum ef kostnaðarmunur er lítill sem enginn. Í öðru lagi að ef kostnaður við að leggja jarðstreng er meiri en að leggja loftlínu þá skuli horft til flugöryggis, til þess hvort farið sé um skipulagða þétta íbúabyggð og þess hvort um þjóðgarð, friðland eða fólkvang er að ræða sem eru friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd vegna sérstaks landslags. Þá telur nefndin að taka skuli mið af afhendingaröryggi og kostnaði við að tryggja það. Nefndin mælist til þess að við undirbúning frumvarps til laga, sbr. framangreint, verði hugað að því að mæla fyrir um ákveðinn hámarkskostnaðarmun sem geti verið um að ræða á milli annars vegar jarðstrengs og hins vegar loftlínu.

Jafnframt kemur fram í lokaorðum nefndarálitsins:

„Einnig er mikilvægt að draga úr sjónmengun loftlína með því að þróa nýjar tegundir flutningsmannvirkja sem falla betur að umhverfinu og velja þeim stað þannig að umhverfisáhrif séu sem minnst. Nefndin bendir á að aðstæður geti verið mjög mismunandi og því þurfi að meta hvert verkefni fyrir sig. Nefndin tekur undir sjónarmið um að tryggt skuli að samráð verði haft við landeigendur þegar flutningsvirki er undirbúið og vonast til þess að sátt náist um framtíðaruppbyggingu raforkukerfisins.“

Undir þetta skrifuðu allir nefndarmenn. Það var enginn ágreiningur um nefndarálitið í nefndinni þannig að allir flokkar skrifuðu undir það.

Mér sýnist við lestur frumvarpsins sem hér hefur verið lagt fram og þessarar þingsályktunartillögu að tekið hafi verið mikið tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram við afgreiðslu málsins í atvinnuveganefnd, en nefndin skilaði áliti sínu 1. apríl sl.

Hér er náttúrlega lögð til grundvallarbreyting í því hvernig skuli meta loftlínur á móti jarðstrengjum. Í núgildandi lögum, eins og við þekkjum, gildir sú regla að valinn skuli ódýrasti kosturinn þannig að flutningsfyrirtækinu, Landsneti í þessu tilfelli, er í raun mjög þröngur stakkur sniðinn. Víðtæk samstaða er um að því beri að breyta. Það geti skapast aðstæður, sem farið er yfir í þingsályktunartillögunni og ráðherra fór svo ágætlega yfir í framsögu sinni, sem geri að verkum að fullréttlætanlegt sé að leggja í meiri kostnað en ef um loftlínu væri að ræða með því að fara í jarðstreng.

Það er einnig tekið tillit til þess hvar eigi að leggja jarðstrengi og komið inn á sjónrænu áhrifin sem við nefndum. Það kom einmitt fram við umfjöllun nefndarinnar um málið að þróuð hefur verið ný gerð af háspennumöstrum sem falla miklu betur að landslagi en við þekkjum í dag, það getur verið mun lengra á milli mastra. Það er því þróun á þeim vettvangi eins og öðrum. Einnig er komið inn á það í tillögunni, sem er mikilvægt til þess að jafna samkeppnismun á milli loftlína og jarðstrengja, að felld verði niður vörugjöld af jarðstrengjunum. Eins og komið hefur fram er 15% vörugjald lagt á jarðstrengi í dag og því er samkeppnisstaða þeirra í þessum samanburði alls ekki góð og þetta þarf auðvitað að laga.

Í þeirri atvinnuuppbyggingu, ekki síst úti um land, sem er okkur svo nauðsynleg og kallað er eftir, mun raforkuframleiðsla og raforka gegna lykilhlutverki. Þetta á ekki síst við í hinum dreifðu byggðum þar sem við þurfum á að halda aukinni fjölbreytni og styrkari stoðum í atvinnulífinu. Við í hv. atvinnuveganefnd vorum á fundi hjá Landsvirkjun fyrir nokkrum dögum síðan. Þar kom fram að þeir hafa ekki kynnst eins mikilli eftirspurn í langan tíma eins og er núna hjá erlendum aðilum sem hafa áhuga á að koma til landsins og byggja upp starfsemi, fjölbreytt atvinnutækifæri á smáum og stórum skala. Þetta hefur einnig komið fram hjá fulltrúa Íslandsstofu, fjárfestingarsviði Íslandsstofu, sem var á nefndarfundi í morgun, hann staðfesti að þetta væri staðan. Sama á við um Orkuveitu Reykjavíkur í samtali sem ég átti við starfsmann þar fyrir stuttu síðan.

Staðan í þessum málum er þannig að Landsnet hefur ekki getað farið í neinar alvöruframkvæmdir við línulagnir í sjö ár. Í sjö heil ár hefur verið stopp í því að efla flutningsgetu á raforku um hinar dreifðu byggðir. Þar bíður sérstaklega norðausturlínan, sem er í raun búin að bíða allt of lengi og það hefur mjög hamlandi áhrif á atvinnuuppbyggingu í dag, sérstaklega á Norðausturlandi. Þetta er um 15 milljarða kr. framkvæmd sem Landsnet er tilbúið til að fara í en hefur ekki getað farið af stað með.

Í dag er það þannig að á Norðurlandi og Norðausturlandi er ekki hægt að fara í neina uppbyggingu í atvinnulífinu sem krefst meira en 10 megavatta í raforku, sem segir okkur að ekki er hægt að koma með nein ný alvöruatvinnutækifæri á Norðausturlandi fyrir utan virkjanir í Mývatnssveit. Á þessari leið, við getum sagt Skagafirði, Eyjafjarðarsvæðinu út af Tröllaskaga og svo austur um er ekki hægt að koma með neitt nýtt. Við höfum dæmi um að það hafi þurft að hverfa frá mjög raunhæfum hugmyndum sem unnið hefur verið að. Það er auðvitað mjög bagalegt í svo mörgu samhengi, með tilliti til byggðaþróunar, með tilliti til aukinnar fjölbreytni í atvinnusköpun á landsbyggðinni sem okkur er svo nauðsynleg.

Hér hefur verið farið yfir það, bæði varðandi lagafrumvarpið og þingsályktunartillöguna, hvernig þessum málum verður skipað í framtíðinni. Það er eflaust mikil bjartsýni að reikna með því að um þetta geti orðið endanleg sátt hjá öllum. Það er viðbúið að áfram verði ágreiningur. Við viljum öll hafa rafmagn, við viljum öll geta byggt upp öflugt atvinnulíf á grundvelli sjálfbærrar raforkuframleiðslu en við viljum ekki endilega hafa línurnar í garðinum hjá okkur. Það sama á við um vegi, við viljum öll geta keyrt og komist á milli staða en við viljum ekki endilega hafa hraðbrautina eða stofnbrautir fram hjá húsinu okkar. Á endanum þarf því að fara fram eitthvert þjóðhagslegt mat og mat á áhrifum á einstaka landshluta. Það er miklu meira undir en svo að einstök sveitarfélög eigi að geta lagt stein í götu slíkra þjóðþrifaverkefna. Á þann hnút verður auðvitað á endanum að höggva. Að einhverju leyti er þá farið inn á skipulagssvið eða skipulagsvald sveitarfélaganna. Það eru svo sem fordæmi fyrir því annars staðar og hugmyndir um að það mætti gera í fleiri þáttum.

Ég vil nefna til dæmis Reykjavíkurflugvöll. Ég hef sagt það í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll að mér finnist eðlilegt að farið sé inn á skipulagsvald Reykjavíkurborgar og gert ráð fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur skuli vera í Reykjavík og hann skuli þjóna sem miðstöð innanlandsflugs. Þar er gengið inn á skipulagsrétt höfuðborgarinnar, en mér finnst það út frá þjóðhagslegum hagsmunum réttlætanlegt. Það er mjög mikilvægt að höggva á þann hnút og ánægjulegt að heyra frá hæstv. ráðherra að um þetta mál hafi verið gott samráð, það hefur ekki alltaf verið þannig þegar við fáum málin til umfjöllunar á þingi og oft er yfir því kvartað. Það er mjög gott að nefndin hafi það í farteskinu að leitað hafi verið víðtæks samráðs um málið og nokkur sátt sé um þá niðurstöðu sem hér er verið að mæla fyrir.